Menn eru ef til vill ekki einhuga um skilgreiningar á listsköpun ýmiss konar sérlunda einfara og alþýðulistamanna sem undanfarna áratugi hafa reynt á þanþol myndlistarinnar, hér á Íslandi sem annnars staðar. Hins vegar er engum vafa undirorpið að með starfsemi sinni í þágu þessarar fjölbreyttu en sérstöku listtjáningar hafa þau hjónin Níels Hafstein og Magnhildur Sigurðardóttir lyft hverju Grettistakinu á fætur öðru. Á þessu ári heldur hugarfóstur þeirra, Safnasafnið á Svalbarðsstönd, upp á 25 ára afmæli sitt með ýmsum hætti. Listasafn Reykjaness, sem ítrekað hefur notið vinsamlegrar fyrirgreiðslu Safnasafnsins á undanförnum árum, ákvað að taka forskot á þessi hátíðarhöld með því að efna til sýningar á fjórum listamönnum úr ranni þess. Verk þeirra hafa verið snar þáttur í starfsemi Safnasafnsins hið nyrðra á undanförnum árum, en hafa ekki verið ýkja áberandi hér syðra.
Með því að leggja rúmgóðan sal Listasafns Reykjaness undir verk fjögurra listamanna úr Safnasafni: Hálfdans Ármanns Björnssonar, Jóns Eyþórs Guðmundssonar, Sigurðar Einarssonar og Sæmundar Valdimarssonar, gefst einnig kjörið tækifæri til að halda á lofti viðhorfi sem hefur verið nokkuð einkennandi fyrir hugmyndafræði þeirra Níelsar og Magnhildar, nefnilega að einungis með því að draga saman og vinna með umtalsvert magn verka eftir sérhvern listamann, geta listasöfn og listáhugafólk öðlast viðunandi skilning á eðlisþáttum þeirra.
Á sýningu Listasafns Reykjaness eru myndaðar „eyjar“ með verkum eftir þrjá afkomendur fornrar tréskurðarhefðar, Hálfdans, Jóns Eyþórs og Sæmundar, sem allir leita sér fanga í íslensku birki eða trjáviði af Íslandsströndum. Í verkum þeirra renna saman fjörlegir hugarheimar þeirra og íslensk alþýðumenning, frásagnir af óvæginni lífsbaráttu almúgafólks og tilraunum þess til að gera sér lífið bærilegra með frásögnum af „kynlegum kvistum“ og íbúum í álfabyggð. Málverk Sigurðar Einarssonar umlykja þessar veraldarsýnir þrívíddarlistamannanna, uppfull með síkvikt samspil mannsækinnar náttúru og náttúrutengds mannlífs, ekki ósvipað því sem við sjáum í málverkum Jóhannesar Kjarvals.
Listasafn Reykjaness vill þakka Safnasafninu og öllum aðstandendum þess fyrir snurðulaust samstarf, nú sem endranær, sömuleiðis öllum þeim sem komu að uppsetningu sýningarinnar hér syðra.
Aðalsteinn Ingólfsson
sýningarstjóri
Safnað frá jaðri að miðju
Áhugi minn á sjálfsprottinni myndlist, svokallaðri alþýðulist, kviknaði haustið 1972 þegar ég slóst í för með Ólafi Jóhannssyni vini mínum, sölumanni hjá SÍS, sem fékk það hlutverk að heimsækja kaupfélögin á leiðinni frá Reykjavík vestur á firði og kynna þeim nýjar vörur. Þegar við renndum inn á bensínstöð á Ísafirði bankaði roskinn maður á rúðuna og sýndi mér ofan í poka með tálguðu fólki og fuglum. Því miður hafði ég ekki handbært fé til að kaupa neitt þótt mig sárlangaði. Ég komst að því síðar að þetta var Jóhannes Steinþórsson (1890-1992), ættaður frá Súgandafirði, og þegar ég heimsótti hann loks var hann aldurhniginn og hættur að tálga en seldi mér það sem hann átti. Í leiðinni keypti ég nokkrar teikningar eftir Eirík Annas Guðjónsson (1908-2007). Áhuginn glæddist árið 1973 er ég sá fagurlega útskorinn og málaðan himbrima eftir Þorstein Díómedusson (1900-1983) á Hvammstanga og þegar færi gafst tók ég hús á honum og keypti ríflega 20 fugla.
Árið 1981 hóf ég störf sem gæslumaður í Víðihlíð á Kleppsspítala og stuttu síðar kom þangað til dvalar Ingvar Ellert Óskarsson (1944-1992) sem um langt skeið hafði teiknað, tússað og vatnslitað sérstæðar myndir sem hrifu mig, fékk ég leyfi til að efna til sýningar á þeim í dagstofunni. Við undirbúning hennar sagði Magnhildur Sigurðardóttir deildarstjóri mér að hún ætti fugla eftir Þorstein Díómedusson og stækkaði þá hópurinn er við síðar rugluðum saman reytum okkar. Magnhildur er ættuð af Vatnsnesi og í grenndinni voru margir sjálflærðir listamenn og keyptum við fyrst á Hvammstanga tálgaða veiðimenn og hesta eftir Egil Ólaf Guðmundsson (1908-1997), fugla eftir Ágúst Jóhannsson (1926-2018) og málað steinfólk eftir Önnu Ágústsdóttur (1936-2018), þar næst trékarla eftir Björn Líndal Guðmundsson (1906-1994) frá Laufási í Víðidal, krítarmyndir eftir Gunnnþór (1916-2008) bróður hans sem áður bjó á Dæli þar í sveit, einnig bréfbáta með fólki og farangri eftir Halldóru Kristinsdóttur (1930-2013) frá Ánastöðum á Vatnsnesi, klippimyndir og útsagað fólk og húsdýr eftir Laufeyju Jónsdóttur í Sæbóli, tálgað fólk og húsdýr eftir Helga Björnsson í Huppahlíð í Miðfjarðardölum, og fugla eftir systurnar Oddnýju Jósefsdóttur frá Sporði í Línakradal og Kristínu Guðrúnu á Ásbjarnarstöðum á Vatnsnesi.
Hér má einnig nefna að á þessum tíma keyptum við pappabyggingar eftir Gunnar S. Kárason (1931-1996) og öll útsaumsverk sem Gísli Halldórsson hafði gert. Þeir bjuggu báðir á Sólheimum í Grímsnesi. Ósjálfrátt var hér lagður grunnur að því sem síðar varð enda hófum við fyrir alvöru söfnun sem leiddi til þess að við áttum 1200 verk þegar við fluttum norður á Svalbarðsströnd og opnuðum hús okkar fyrir gestum. Frá upphafi lögðum við áherslu á að safna þrívíðum hlutum því við óttuðumst mjög að þeir myndu skemmast eða glatast, ekki síst ef þeir rötuðu í hendur barna! Við hvöttum handlagið fólk til að skapa út frá hjartalagi frekar en hugmyndum annarra og þræddum verkstæði eldri borgara til að kanna hvað þar væri að finna. Í þeim leiðöngrum heimsóttum við Norðurbrún 1 og keyptum verk eftir Bjarna Vilhjálmsson (1913-1999) frá Hamri í Gaulverjabæjarhreppi sem tálgaði út fugla, birni og hunda, og Svövu Skúladóttur (1909-2005) frá Ísafirði sem vann frjálslega í leir og vatnslitaði tilskorin viðarhús sín þannig að blómin og gluggatjöldin voru utan á þeim. Þar á verkstæðinu nutum við sérstakrar aðstoðar og velvildar Sigríðar Ágústsdóttur leirkerasmiðs.
Þegar undirbúningsnefndin að stofnun Nýlistasafnsins tók til starfa 1979, undir formennsku minni, ásamt Magnúsi Pálssyni og Ólafi Óskari Lárussyni (1951-2014), var afráðið að setja klausu inn í skipulagsskrá um að hlúa að sjálflærðu listafólki og á næstu árum setti ég upp margar einka- og samsýningar í Nýlistasafninu á verkum sem okkur Magnhildi áskotnuðust eða ég fékk lánuð hjá höfundunum, en dró svo í land þegar aðstæður breyttust og stofnun Safnasafnsins var í augsýn.
Haustið 1997 festum við kaup á Samkomuhúsinu á Svalbarðsströnd í Eyjafirði, sem hafði verið notað sem barnaskóli og þinghús frá 1922 til 1970, og hófum starfsemi í því árið eftir. Árið 2006 þáðum við Gömlu-Búð að gjöf frá hreppsnefndinni, kaupfélagshús sem var reist árið 1900 á Svalbarðseyri, og fluttum það á lóð okkar til endurgerðar. Húsin voru síðan tengd saman með nýbyggingu 2007. Í þeim er rúmgott anddyri, 10 misstór sýningarrými, lista- og fræðimannsíbúð, rannsóknar- og skráningarstofa, listaverkageymsla, bókastofa, lítið smíðahús, salerni, ræstiklefi, tveir stigar og lyfta.
Stofnendur hafa frá upphafi unnið launalaus að rekstri og verkefnum safnsins, en ávallt notið náinnar og fagmannlegrar aðstoðar stjórnarfólks, ekki síst undanfarin ár þegar umfangið hefur aukist til mikilla muna. Auk stofnenda, Níelsar Hafstein og Magnhildar Sigurðardóttur, skipa stjórnina myndlistarmennirnir Harpa Björnsdóttir, Unnar Örn J. Auðarson og Margrét M. Norðdahl.
Safnasafnið
Starfssvæði safnsins er Ísland allt og markmið þess að safna sjálfsprottinni myndlist og miðla henni ásamt framsækinni nútímalist, það tekur við gjöfum á innlendri og erlendri myndlist og kaupir verk ef færi gefst til að styrkja eign sína. Stjórnin leggur áherslu á að leita uppi listafólk sem hefur fallið í gleymsku eða verið utan seilingar og fjalla um verk þess og kynna fyrir gestum. Safnkosturinn er fjölþættur og bætist ört við hann, sjálfsprottin myndlist er í fyrirrúmi en tekið við öðrum verkum, innlendum sem erlendum, ef þau falla að söfnunar- og sýningarstefnu. Eignin er í aðalatriðum byggð upp þannig að í henni séu sem flest verk eftir hvern höfund, verkin eru nú um 135.260 og skiptast í 5 flokka:
005.800 Grunndeild safneignar (flöktandi tala vegna stöðugrar innkomu verka og vefskráningar á vinnslustigi)
003.000 Verslun Ásgeirs G. Gunnlaugssonar & Co textíll: vefnaður, útsaumur o.þ.h., vélar, tæki og verkfæri
000.681 Stofa Ingvars Ellerts Óskarssonar vatnslitamyndir, blýants-, túss- og litkrítarteikningar
120.000 Kiko Korriro-stofa ( Þórðar G. Valdimarssonar) klipp, teikningar, skúlptúrar, þrykk og margt fleira
005.779 Stofa Thors Vilhjálmssonar túss- og litkrítarteikningar, vatnslitamyndir, vandaðar listrannsóknir
Í eigninni eru blýantsteikningar, bókverk, dvd, fjölfeldi, hekl, hentur, hljóðgjafar, hönnunarhlutir, innsetningar, (ein í 160 einingum), keramik, klipp, krítarmyndir, ljósmyndir, málverk, mósaík, myndbönd, postulín, prjón, skart, skúlptúrar, tálguverk, tússverk, tölvuprent, útsaumur, útskurður og útsögun, vatnslitamyndir, vefnaður og þrykk. Í bókastofunni eru um 1.200 bækur, tímarit, bókverk og bæklingar.
Safnið kynnir til leiks sjálfmenntaða listamenn sem hafa ekki hlotið verðskuldaða viðurkenningu eða verk þeirra geymd áratugum saman í geymslum og sjaldan eða aldrei verið kynnt því þau falla ekki að stefnum viðkomandi safna. Með því að tefla verkum þeirra fram í takti við verk lærðra listamanna er bent á það sem skiptir mestu máli, að þau standast gæðakröfur og eiga erindi við almenning.
Safnið hefur gefið út 4 sýnisbækur safneignar, sú fyrsta var þverskurður af safneigninni, önnur um hannyrðir óþekktra kvenna, en báðar komu þær út vorið 2016. Sú þriðja fjallar um 260 fugla og hin fjórða um Þórð G. Valdimarsson, Kiko Korriro. Níels Hafstein skrifaði greinar í 2 fyrstu bækurnar, Harpa Björnsdóttir skrifaði aðalmálið í fuglabókinni, Níels Hafstein um Þórð að lokinni áralangri rannsókn, en að auki eru í henni textar eftir Aðalstein Ingólfsson listfræðing og Þórð Sverrisson, bróðurson listamannsins. Um útgáfurnar sáu þau Unnar Örn J. Auðarson og Harpa, þau öfluðu upplýsinga, völdu myndefni, létu þýða og prófarkarlásu. Unnar samdi við prentverk og bókbandstofu og hafði eftirlit með öllu ferlinu frá upphafi til enda. Þá er safnið formlegur útgefandi að bók um Karl Kjerúlf Einarsson, Dunganon, Hertoga af St. Kilda, Leyndarhirði Hekluglóða sem Harpa Björnsdóttir og Helga Hjörvar skrifuðu og útveguðu styrki til, og kemur hún væntanlega út í apríl. Safnið mun svo gefa út bók um Sölva Helgason á 200 ára fæðingarafmæli hans í sumar, samhliða verður sýning á verkum hans, 28 þeirra voru sýnd á Kjarvalsstöðum í fyrra en mörg önnur hafa ekki komið fyrir almenningssjónir. Höfundur er Harpa Björnsdóttir sem lengi hefur rannsakað ævi og feril Sölva.
Safnið hefur vakið athygli fyrir sýningar sínar og óvenjulega nálgun. Um það hefur verið fjallað í innlendum sem erlendum miðlum og tímaritum, meðal annars í Raw Vision, margverðlaunuðu bresku tímariti, ITE í Finnlandi sem gefur út bækur og skrár um sjálfsprottna list, og dpi-Magazine í Tapei á Taiwan sem kynnir slíka myndsköpun frá öllum heimshornum.
Safnið fékk Eyrarrósina 2012, viðurkenningu samkvæmt safnalögum árið 2013 og stefnir nú að því að fá samning um ábyrgðarsafn um sjálfsprottna íslenska myndlist samkvæmt hvatningarbréfi frá Mennta- og menningarmálaráðuneytinu 2014. Þá var safnið í lokavali tilnefningar til alþjóðlegra verðlauna Dr. Guislain Museum í Ghent í Belgíu 2014, en sú stofnun er þekkt fyrir stuðning sinn við listafólk með geðræn vandamál.
Safnasafnið vill opna augu fólks fyrir fegurð mismunandi hluta og minninga, samhljómi persónulegrar iðju og fjöldaframleiðslu, en ekki síst þeirri ábyrgð sem það axlar með varðveislu einstæðra verðmæta. Safnið býr við stöðuga endurskoðun og gagnrýni stjórnarfólks og tekur á sig skarpari mynd með hverju árinu sem líður. Hlutverk þess er víðfeðmara en í fyrstu og sú hugsun ríkjandi að það höfði til barnsins í manninum jafnt sem barnanna sjálfra og að efla þau gildi sem ráða við listsköpun: hreina sjálfsprottna sýn, móttækileik, undrun, kímni, saklausa frásögn og tjáningu.
Listasafni Reykjanesbæjar, sýningarstjórn og öðrum er að sýningunni standa, er þakkað kærlega fyrir þann hlýhug sem liggur að baki þeirri ákvörðun að taka til sýningar verk Hálfdans Ármanns Björnssonar, Jóns E. Guðmundssonar, Sigurðar Einarssonar og Sæmundar Valdimarssonar og heiðra minningu þeirra.
Níels Hafstein