Afmælissýning

3 sýningar í tilefni 15 ára afmælis safnsins

Listasafn Reykjanesbæjar fagnar 15 ára afmæli í ár.  Eiginleg safnastarfsemi hófst í apríl 2003 en segja má að Listasafn Reykjanesbæjar hafi þó verið til sem hugmynd allt frá sameiningu sveitarfélaganna Njarðvíkur, Hafna og Keflavíkur í Reykjanesbæ árið 1994.  Á þeim tíma var þó varla hægt að tala um formlegt listasafn heldur fyrst og fremst utanumhald á listaverkaeign bæjarins sem var þó nokkur.   Árið 2003  var hins vegar opnaður góður sýningarsalur í Duus Safnahúsum sérstaklega ætlaður Listasafninu, unnin var stofnskrá og safnið fékk  sjálfstæðan fjárhag.  Listasafn Reykjanesbæjar var þar með orðið sjálfstæð stofnun innan bæjarfélagsins og eitt af þremur söfnum bæjarins.  Frá árinu 2003 hefur starfsemin farið vaxandi með hverju árinu og árið 2014 var Listasafn Reykjanesbæjar eitt af þeim söfnum á Íslandi sem fékk formlega gildingu samkvæmt nýjum safnalögum frá 2011. 

Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og skipar því ákveðið hlutverk í menningarlífi svæðisins.  Megin hlutverk listasafnsins er að varðveita listaverk Reykjanesbæjar, safna nýjum verkum samkvæmt söfnunarstefnu, skrá verkin og rannsaka sögu þeirra og myndlistar á svæðinu og miðla þeirri þekkingu til heimamanna og annarra. Safnkosturinn telur nú tæplega 1000 verk sem allur er skráður í Sarp, gagnagrunn íslenskra safna.  Hluti verkanna er jafnan geymdur í safngeymslum en einnig má sjá verkin í stofnunum bæjarins og nú er fjöldi listaverka á afmælissýningu safnsins í þremur sýningarsölum í Duus Safnahúsum.  Safnið hefur staðið fyrir rúmlega 300 viðburðum á þessum 15 árum, m.a. opnað 80 stórar sýningar í Listasalnum í Duus og fjölda minni sýninga í öðrum sölum Duus þar sem 326 listamenn hafa komið við sögu ýmist á einkasýningum eða samsýningum og eru það bæði heimamenn og gestir, innlendir og erlendir. Málstofur, málþing, leiðsagnir og fyrirlestrar hafa verið haldnir og ótölulegur fjöldi nemenda mætt í skólaheimsóknir. Safnið hefur haldið úti Listaskóla fyrir börn á sumrin og stýrt árlegri Listahátíð barna frá byrjun en nú í vor var þrettánda listahátíðin haldin með þátttöku allra leikskólanna 10, grunnskólanna 6, dansskólanna tveggja, tónlistarskólans og fjölbrautaskólans þannig að segja má að safnið hafi komið að hverju einasta heimili bæjarins og þar með staðið við sitt helsta hlutverk; að auðga líf bæjarbúa á jákvæðan hátt.

Listasafn Reykjanesbæjar opnar í tilefni 15 ára afmælisins þrjár sýningar í Duus Safnahúsum föstudaginn 1.júní n.k. kl.18.00.  Verkin á sýningunum þremur koma öll úr safneigninni og hefur safnið eignast flest þeirra á þeim 15 árum sem liðið hafa frá formlegri stofnun þess. Verkin eru af margvíslegu tagi, s.s. olíuverk, vatnlitamyndir, skúlptúrar og  grafík og eru eftir hina ýmsu listamenn en þó fyrst og fremst samtímamenn, tæplega 60 listamenn eiga verk á sýningunum. Í Listasalnum er uppistaðan olíuverk og skúlptúrar, í Bíósalnum eru sérstaklega teknar fyrir mannamyndir og gengur sú sýning undir heitinu „Fígúrur“ og  í Stofunni má sjá fjölda vatnslitamynda eftir málarann og heimamanneskjuna Ástu Árnadóttir sem fjölskylda hennar gaf safninu.  Sýningarstjóri allra sýninganna er Inga Þórey Jóhannsdóttir.

Sýningarnar þrjár eru jafnframt sumarsýningar safnsins og eru opnar til 19.ágúst. Safnið er opið alla daga 12.00-17.00.

Listasafn Reykjanesbæjar 15 ára

Inngangstexti úr sýningarskrá sem gefin var út í tilefni afmælisins: Valgerður Guðmundsdóttir

Listasafn Reykjanesbæjar varð til við samruna sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994.  Sveitarfélögin höfðu í nokkurn tíma skoðað hugmyndir um sameiningu og niðurstaðan varð sú að þau og stofnanir þeirra runnu saman í eina heild þann 25.júní árið 1994. Eiginlegt listasafn var ekki rekið í neinu þeirra þriggja sveitarfélaga sem um ræðir en byggðasöfn voru til bæði í Keflavík og Njarðvík.  Listasafn Keflavíkur var þó til að nafninu til,  hafði sjálfstæða nefnd og sú nefnd ásamt bæjarritara, sá um innkaup listaverka fyrir bæinn.  Engin samþykkt söfnunarstefna var þar fyrir hendi frekar en aðrar formlegar samþykktir og aðallega voru keypt listaverk með það í huga að skreyta stofnanir bæjarins og þá oftar en ekki, verk eftir þjóðkunna listamenn annars vegar og svo heimamenn hins vegar. Engin formleg fjárveiting var á fjárhagsáætlun, ekkert húsnæði og enginn starfsmaður. Má gera ráð fyrir að svipað fyrirkomulag hafi verið á hinum stöðunum tveimur.

Áhugi á myndlist var samt mikill á Suðurnesjum og að minnsta kosti tvö félög áhugafólks um myndlist voru virk í Keflavík á síðustu þremur áratugum síðustu aldar og annað félagið lifir enn þegar þetta er skrifað. Listafélagið Baðstofan var stofnað af áhugasömum bæjarbúum síðla árs 1970 og var fyrst og fremst hugsað til að halda utan um alls kyns námskeið í list- og handverki. Aðalhvatamaðurinn að stofnun félagsins var Erlingur Jónsson, þá handavinnukennari við Gangfræðaskólann í Keflavík, og sá sem hélt utan um hópinn.  Hann var fyrsti listamaðurinn í bæjarfélaginu sem sæmdur var heiðursnafnbótinni „Listamaður Keflavíkur“ árið 1991 og segir kannski meira en margt annað um stöðu myndlistarinnar í tónlistarbænum Keflavík! Ýmsir mætir listamenn héldu námskeið í Baðstofunni næstu árin og má þar helstan nefna Eirík Smith listmálara frá Hafnarfirði.  Bæjarfélagið studdi við námskeiðahaldið með ýmsum hætti og tóku félagsmenn virkan þátt í menningarlífi bæjarins svo sem með öflugu sýningarhaldi. Formenn Baðstofunnar fyrstu árin voru þær Ásta Pálsdóttir, Ásta Árnadóttir og Sigríður Rósinkarsdóttir sem allar voru þekktir vatnslitamálarar í bæjarfélaginu.

Þegar nær dró aldamótum, þótti þörf á að útvíkka markmið félagsins og þá aðallega með það markmið að félagið gæti eignast eigið húsnæði.  Árið 1998 var svo stofnað Félag myndlistarmanna í Reykjanesbæ og voru þar saman komnir bæði áhugamenn og atvinnufólk í myndlist og þeirra helsta markmið að félagsmenn fengju gott húsnæði sem dygði fyrir námskeiða- og sýningahald. Viðræður við bæjarstjórn Reykjanesbæjar enduðu á því að skrifað var undir samning þar sem gamalt tveggja hæða steinhús í hjarta bæjarins og um leið í eigu bæjarins var sett í hendur félagsmanna og ákveðið fjármagn tryggt til framkvæmda.  Félagið skyldi fá neðri hæðina en sú efri var eyrnamerkt sem verðandi sýningarsalur Listasafns Reykjanesbæjar sem enn var þó, þegar hér var komið við sögu, aðeins hugmynd í skúffu, með ekkert fjármagn og enginn starfsmaður. Félag myndlistarmanna lét hins vegar gera upp neðri hæðina og er hún enn í notkun á þeirra vegum, bæði undir námskeið og sýningar og þar er einnig rekið sölugallerí félagsmanna og kallast húsið Svarta Pakkhúsið.

Fyrstu ár safnsins

Árið 2000 var sérstakt menningarár á Íslandi og gafst sveitarfélögum þá kostur á að sækja um styrk til menntamálaráðuneytisins sem nota skyldi til að ráða menningarfulltrúa í bæina.  Reykjanesbær ákvað að slá til og fyrsti menningarfulltrúi Reykjanesbæjar, Valgerður Guðmundsdóttir, var ráðinn 1.september árið 2000 og varð hún um leið fyrsti starfsmaður menningarmála í Reykjanesbæ fyrir utan starfsmenn bókasafns og byggðasafns sem höfðu sínum eigin hnöppum að hneppa tengdum bókasafni og byggðasafni.  Með sérstökum starfsmanni í menningarmálum höfðu opnast möguleikar fyrir fjölbreyttari áherslur í menningarstarfsemi bæjarins svo sem tengdum myndlist og fyrsta nóvember það ár hófst kynning á myndlistarmönnum bæjarins undir heitinu „Mynd mánaðarins“ og stóð sú kynning yfir með hléum til ágústloka árið 2003.  Einnig var unnin skrá yfir öll rúmlega 200 listaverkin í eigu bæjarins, þau ljósmynduð og heimildum um sögu myndlistar í bæjarfélaginu var farið  að safna saman.  Sýningarsalurinn á efri hæð Svarta Pakkhússins lét þó enn bíða eftir sér því nú hafði bæjarstjórn tekið þá ákvörðun að gömul fiskhús í Grófinni sem kölluð voru Duushús, skyldu keypt,  gerð upp og þeim breytt í menningarhús og þangað skyldi fjármagni til endurgerðar menningarhúsa nú beint.

Duushúsin samanstanda af sambyggðri húsaröð nokkurra gamalla húsa, það elsta Bryggjuhúsið á þremur hæðum, var byggt árið 1877 af Hans Peter Duus, dönskum kaupmanni og það yngsta var byggt í kringum 1970.  Þarna höfðu fyrstu kaupmenn bæjarins haft aðsetur og þarna var verkaður fiskur í rúmlega hundrað ár. Húsin voru í sjálfu sér merkilegar minjar og tæpir 2000 m2 að stærð þannig að nú voru spennandi tímar framundan.  Lögð var fram verkáætlun sem gerði ráð fyrir að endurgerð hæfist árið 2000 og nýráðnum menningarfulltrúa bæjarins falin framkvæmdastjórnin ásamt Hirti Zakaríassyni bæjarritara, Guðleifi Sigurjónssyni þáverandi forstöðumanni Byggðasafns Reykjanesbæjar og Birni Samúelssyni umsjónarmanni fasteigna hjá Reykjanesbæ. Það var svo á lokadaginn 11.maí árið 2002 að fyrsti sýningarsalur í Duus Safnahúsum var opnaður með sýningu Byggðasafns Reykjanesbæjar á Bátalíkönum Gríms Karlssonar og í byrjun september sama ár, á Ljósanótt, opnaði Listasafn Reykjanesbæjar sýninguna Reykjanes – Blað 18, verk Einars Garibalda,  í ókláruðum 300 m2 hliðarsal inn af Bátasalnum svokallaða og þar með fór boltinn að rúlla; Listasafn Reykjanesbæjar hafði eignast sýningasal. Tilkoma listasafnsins í Duus fjölgaði þeim stoðum sem tilvera Duus Safnahúsa byggði á og ýtti enn frekar undir þá uppbyggingu sem fram undan var. Það er dýrt að endurgera gömul hús og því nauðsynlegt að skapa eftirspurn. Því fjölbreyttari sýningar - því fleiri gestir – því meiri eftirspurn – því meira fjármagn!

Frekari uppbygging og efling starfseminnar

Það voru mörg verkefni sem þurfti að vinna áður en Listasafn Reykjanesbæjar varð að alvöru safni og markmiðið var sett á að uppfylla 4.grein safnalaga nr.106 frá 2001 sem fyrst: „Safn er samkvæmt lögum þessum stofnun, opin almenningi, sem hefur það hlutverk að safna heimildum um manninn, sögu hans, umhverfi og náttúru landsins, standa vörð um þær, rannsaka, miðla upplýsingum og hafa þær til sýnis svo að þær megi nýtast til rannsókna, fræðslu og skemmtunar." Vinna hófst strax við gerð stofnskrár og þann 8.október árið 2002 samþykkti  Menningar- og safnaráð Reykjanesbæjar stofnskrá fyrir listasafnið og þar hljóðaði fyrsta greinin svo: „Listasafn Reykjanesbæjar er í eigu Reykjanesbæjar. Menningar- og safnaráð Reykjanesbæjar gerir tillögur til bæjarstjórnar um stefnumörkun í málefnum þess og hefur eftirlit með að samþykktum og stefnu sé fylgt.  Stjórn þess er að öðru leyti í höndum forstöðumanns/menningarfulltrúa.  Rekstrarkostnaður safnsins greiðist úr bæjarsjóði í samræmi við fjárhagsáætlun ár hvert.  Safnið starfar samkvæmt safnalögum." Þar með var ákvörðun og stefna tekin, Listasafn Reykjanesbæjar var að verða að veruleika sem sjálfstæð stofnun innan bæjarkerfisins og ákveðið að menningarfulltrúi yrði jafnframt forstöðumaður safnsins, að minnsta kosti til að byrja með.  Áfram var unnið við pappírsvinnuna og þá var ekki slæmt að hafa til aðstoðar alvanan safnstjóra við Byggðasafn Reykjanesbæjar, Sigrúnu Ástu Jónsdóttur, sem komið hafði til starfa við safnið vorið 2001 og einnig fékkst góð aðstoð frá Safnaráði. Sýningarstefna og söfnunarstefna voru nú skrifaðar og samþykktar og fyrsta starfsáætlun listasafnsins var samþykkt fyrir árið 2003.  Safnið fékk sjálfstæðan bókhaldslykil árið 2004 og sama ár fara að koma inn fyrstu styrkirnir úr Safnasjóði.  Stór fyrirtæki á Suðurnesjum eins og Glitnir með Unu Steinsdóttur þáverandi útibússtjóra í Keflavík í fararbroddi, Sparisjóður Keflavíkur sem þá var og hét og Flugstöð Leifs Eiríkssonar léttu líka róðurinn með góðum styrkveitingum á þessum fyrstu árum og almennt var ákveðin jákvæðni í garð listasafns í Reykjanesbæ enda fyrsta og um leið eina listasafnið á Suðurnesjum.

Þegar farið er yfir verkefnaskrá Listasafns Reykjanesbæjar fyrstu árin má sjá að mikil áhersla hefur verið lögð á sýningarhald og fleiri verkefni sem gerðu safnið sýnilegt í samfélaginu. Á hverju ári voru haldnar 5-6 stórar sýningar í listasalnum í Duus og safnið aðstoðaði einnig við fjölda minni sýninga í öðru sýningarrými í bænum og þá sérstaklega í kringum Ljósanótt, menningar- og fjölskylduhátíð Reykjanesbæjar. Listahátíð barna var og er haldin á hverju vori, fyrst með þátttöku eins leikskóla en sem þróaðist svo yfir í þátttöku allra leik- og grunnskóla og síðar tónlistarskólans, dansskólanna og fjölbrautaskólans  og einnig var og er listaskóli fyrir börn rekinn á sumrin sem mótvægi við íþrótta- og leikjaskólann sem lengi hafði verið rekinn í bænum.  Að sjálfsögðu var reynt að uppfylla aðrar formlegar skyldur safna með ýmsum hætti eins og fram kemur hér síðar en auðvelt er að sjá að stjórn safnsins hefur lagt áherslu á sýnileika safnsins með margvíslegum hætti. Sjálfsagt má rekja þá áherslu á þörf nýrrar stofnunar til að skapa sér sess í samfélagi þar sem ekkert listasafn var fyrir og þá um leið að skapa forsendur fyrir fjárveitingum til verkefna sem ekki var vitað að samfélagið þyrfti endilega að uppfylla! Eins og fram hefur komið þá var ákveðin jákvæðni í garð listasafnsins áberandi á þessum upphafsárum og bæjarstjórinn Árni Sigfússon gekk þar fremstur í flokki ásamt formanni  menningar- og safnaráðs Björk Guðjónsdóttur.

Gagnrýni og velvild

Ekki voru þó allir á eitt sáttir með að listasafnið fengi aðstöðu í Duus.  Áhugmenn um Bátalíkön Gríms Karlssonar vildu fleiri sali fyrir bátalíkön og talsmenn Byggðasafnsins vildu nýta plássið fyrir geymslur þess. Skrifaðar voru skammargreinar í staðarblöðin og kvartanir sendar til bæjarstjórnar.  Fyrrverandi bæjarfulltrúi og útgerðarmaður og einn af stuðningsmönnum bátasafns Gríms skrifaði til dæmis grein í Víkurfréttir í september 2002 með fyrirsögninni „Er verið að hafa okkur að fíflum?“ Þar gerir hann sýningu Einars Garibalda „Reykjanes, blað 18“ að umtalsefni og líkir verkefninu við Nýju fötin keisarans.  Sama sýning fær hins vega þann dóm hjá Jóni B. K. Ransu í Morgunblaðinu um svipað leyti að þetta sé „glæsileg byrjun á sýningahaldi hjá Listasafni Reykjanesbæjar.“ Því má svo við bæta að Einar Garibaldi gaf  safninu öll verkin eftir sýninguna og var það nokkurs konar vöggugjöf nýja listasafnsins á Suðurnesjum.  Menningar- og safnaráð Reykjanesbæjar stóð hins vegar í lappirnar og áréttaði mikilvægi Listasafns Reykjanesbæjar í Duus og í bæjarfélagið sjálft með sérstökum bókunum 10.september þetta ár sem settu enn frekari stoðir undir safnið: „Menningar- og safnaráð lýsir ánægju sinni með þróun mála hjá Listasafni Reykjanesbæjar og fagnar opnun sýningarsalar í nafni Listasafns Reykjanesbæjar í Duus-húsum. Menningar- og safnaráð bendir á að við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2003 er nauðsynlegt að gera ráð fyrir rekstrarkostnaði safnsins."

Uppbygging safnkosts, rannsóknir og sýningastjórnun

Listasafnið átti að sjálfsögðu einnig fjölda velunnara og listamenn bæjarins voru margir mjög glaðir og vildu auðvitað allir sýna í Duus og var þá vandi á höndum. Hverjir áttu að komast að og hverjir ekki?  Þá var gott að hafa samþykkta sýningarstefnu sem hægt var að vísa í og öfluga aðila í valnefnd sem vissu að ekki var hægt að gera svo öllum líkaði.   Fyrstu árin sátu í valnefndinni Sigrún Hauksdóttir fyrrverandi fulltrúi í menningar- og safnaráði og Reynir Valbergsson þá fjármálastjóri Reykjanesbæjar.  Aðalsteinn Ingólfsson listfræðingur kom inn í  valnefndina árið 2004 í stað Sigrúnar en hann er uppalinn í Njarðvík og Inga Þórey Jóhannsdóttir myndlistarmaður í Keflavík kom inn árið 2007 í stað Reynis. Forstöðumaður safnsins, Valgerður Guðmundsdóttir hefur setið í valnefnd frá upphafi. Í sýningarstefnunni stóð m.a.: „Safnið skal vera með fjölbreytt sýningarhald þar sem gerðar eru strangar listrænar kröfur sem miða að því að sýna ávallt það besta og framsæknasta hverju sinni og stuðla þannig að því að safnið verði sterkt afl í íslensku myndlistarlífi." Það var því strax ljóst að mikill metnaður var í gangi fyrir hönd safnsins og að valið skyldi vel.  En í sýningarstefnunni stóð líka: „Listasafnið skal sinna listiðkun bæjarbúa með ákveðnum hætti, s.s. kynningum, fyrirlestrum, aðstoð við sýningarhald og almennri hvatningu.“ Safnið átti þar með einnig að sinna listamönnum svæðisins sérstaklega og það hefur verið gert og þá einkum í tengslum við Ljósanótt.  Sú venja hefur til dæmis skapast frá árinu 2003 að listasafnið hefur alltaf verið með heimafólk í sýningum sínum í Duus Safnahúsum og þannig hafa rúmlega áttatíu Suðurnesjamenn tekið þátt í sýningarhaldi Listsafns Reykjanesbæjar frá stofnun þess, ýmist með einkasýningum eða á samsýningum og má skoða þá sögu á vef safnsins.

Starfsmönnum fjölgaði hægt en listasafnið tók yfir rekstur Duus Safnahúsa árið 2004 og þar með voru safnverðir þar komnir á launaskrá listasafnsins.  Verkefnaráðning hefur reynst notadrjúg og flestir sýningarstjórarnir hafa til dæmis verið verkefnaráðnir. Þannig  hafa líka verið ráðnir háskólamenntaðir starfsmenn til að sinna skráningu safnkostsins, fyrst í í sérstakan tölvugrunn sem búinn var til fyrir safnið en síðan í menningarsögulega gagnagrunninn Sarp og var forskráningu í hann lokið í júní 2014, þá alls sexhundruð og tíu verk. Síðar hefur listfræðingur unnið við að bæta við ýmsum listfræðilegum atriðum í skráninguna og nú er svo komið að í ársskýrslu 2016 er talað um fulla skráningu í gagnagrunninn á safnkosti Listasafns Reykjanesbæjar, alls sjöhundruð tuttugu og fimm verk.   Safnkosturinn er afar fjölbreyttur og segja má að flestar tegundir myndlistar megi finna í safninu.  Safnið hefur keypt listaverk fyrir ákveðna upphæð á hverju ári og þá hefur söfnunarstefnan verið höfð að leiðarljósi og þá einkum verið leitað til listamanna af svæðinu og þeirra sem hafa verið með sýningar í safninu. Einnig hafa ýmsir listamenn og aðrir gefið safninu nokkuð af verkum.

Verkefnaráðnir starfsmenn hafa einnig verið ráðnir til að safna heimildum um myndlistarsögu svæðisins og sinna forvörslu. Safngeymslurnar eru reknar í góðu húsnæði í safnamiðstöðinni Ramma í samstarfi við Byggðasafn Reykjanesbæjar.  Þar sinna starfsmenn byggðasafnsins daglegri umsýslu um listaverkin á sama hátt og starfsmenn listasafnsins sinna daglegri umsýslu á munum byggðasafnsins á sýningum þess í Duus Safnahúsum.  Þessi samvinna og verkaskipting safnanna tveggja hefur reynst starfsemi beggja safnanna vel og þá sérstaklega á þann hátt að nýta sérþekkingu og byggja upp reynslu þeirra föstu starfsmanna sem söfnin hafa yfir að ráða. Árið 2008 var ráðinn fræðslu- og kynningarfulltrúi við listasafnið, Guðlaug María Lewis og breytti það miklu við móttöku nemendahópa og kynningu almennt svo sem notkun samfélagsmiðla.  Ný heimasíða var tekin í notkun árið 2016 og einnig er safnið á Facebook  og Instagram.

Öflug útgáfustarfsemi hefur alltaf verið í tengslum við stóru sýningarnar í listasalnum í Duus. Safnið  hefur frá byrjun gefið út veglegar sýningarskrár við hverja sýningu og áhersla lögð á vandaðan texta á íslensku og ensku um listina og listamennina og góðar ljósmyndir verið teknar af öllum verkum.  Allt efnið er jafnframt  sett á vefsíðu safnsins og þannig hefur safnast á einn stað mikill fróðleikur og þekking um myndlist og myndlistarmenn samtímans og er. framlag safnsins í að sinna rannsóknarskyldu sinni. Listamennirnir sjálfir fá líka alltaf góðan skerf af sýningarskrám til að nýta sér til kynningar.  Aðal hönnuður útgefins efnis hjá safninu hefur verið frá byrjun Jón Oddur Guðmundsson en fleiri hafa komið til og hafa þeir alltaf verið verkefnaráðnir.  Ýmsir góðir fræðimenn og hugmyndafræðingar á sviði myndlistar eiga efni í þessum sýningarskrám og má þar nefna til dæmis Jón Proppé, Rögnu Sigurðardóttur, Jón B. K. Ransu, Guðberg Bergsson, Markús Þór Andrésson, Sigríði Þorgeirsdóttur og Einar Fal Ingólfsson svo örfáir séu nefndir. Aðalsteinn Ingólfsson fyrrnefndur á þó flesta textana og hefur verið öflugur sýningarstjóri og textasmiður frá árinu 2004 og um leið einn traustasti bakhjarl Listasafns Reykjanesbæjar og á stóran þátt í uppbyggingu og þróun safnsins.

Samvinnuverkefni

Mörg skemmtileg verkefni hafa litið dagsins ljós undir verndarvæng Listasafns Reykjanesbæjar og hafa þegar verið nefnd Listaskóli barna og Listahátíð barna sem enn eru við lýði og hafa bara stækkað og dafnað með árunum.  Sýningarrýmið Suðsuðvestur leit dagsins ljós í desember árið 2004 og annar  stofnenda, Inga Þórey Jóhannsdóttir,  situr enn í listráði safnsins, hinn stofnandinn var Thelma Björk Jóhannesdóttir myndlistarkennari, þá verkefnaráðinn starfsmaður listasafnsins.  Í fyrstu grein stofnskrár um sýningarrýmið segir: „Sýningarrýmið heitir Suðsuðvestur og er rekið sem sjálfstætt útibú frá Listasafni Reykjanesbæjar.  Suðsuðvestur er ætlað sem sýningarrými og opinn vettvangur fyrir myndlistarfólk sem vinnur að listsköpun á rannsakandi hátt.  Listamenn sem útfæra hugmyndir sínar í mismunandi miðla og vekja upp spurningar og umhugsun um samtímann.“ Þetta var skemmtileg viðbót og um leið ákveðið mótvægi við stundum hefðbundið sýningarhald safnsins í listasalnum í Duus.  Suðsuðvestur var til húsa í litlu timburhúsi á Hafnargötu 22 í Keflavík sem listasafnið hafði fengið til ráðstöfunar og bar safnið ábyrgð á rekstrinum en þær stöllur sáu alfarið um sýningarstjórnina, uppsetningu sýninga og samstarf við listamenn.  Thelma hætti í stjórn Suðsuðvesturs eftir árið en Inga Þórey hélt verkefninu lifandi til ársloka 2013 af mikilli elju og hugvitssemi. Inga Þórey hefur unnið í tímabundnum verkefnum við Listasafn Reykjanesbæjar í mörg ár, bæði sem sýningarstjóri og sérfræðingur og hefur átt stóran þátt í uppbyggingu þess.

Sumarið 2012 var gerður samningur milli Listasafns Reykjanesbæjar og listamannsins Erlings Jónssonar, sem var sá fyrsti sem bar nafnbótina Listamaður Keflavíkur, um að safnið tæki að sér að varðveita sjötíu og eitt verk eftir listamanninn og í framhaldi af því var sett upp sýning á nokkrum verka listamannsins í einum sal Duus Safnahúsa. Um leið voru kynntar hugmyndir menningarráðs, um að í framtíðinni yrði Listasafn Erlings Jónssonar eitt af söfnunum í Duus Safnahúsum og að þar yrði ávallt hægt að ganga að verkum hans vísum. Ákveðið var að viðkomandi salur yrði kallaður Erlingssalur og þar myndi Listasafn Erlings Jónssonar hafa skjól. Á sýningunni mátti sjá fjórtán skúlptúra eftir Erling og ýmsan fróðleik honum tengdan. Í Reykjanesbæ mátti víða sjá önnur verk eftir Erling og var fólki bent á vef bæjarins eða bækling um útilistaverk bæjarins sem lá víða frammi og hvatti fólk til að leggja leið sína um bæinn og njóta verkanna í eðlilegri umgjörð. Önnur verk Erlings fóru til varðveislu í safngeymslur safnsins í Ramma. Safnið vann einnig að því að gera vef um listamanninn og verk hans. Því miður varð sú breyting á sumarið 2015 að verk Erlings voru flest öll flutt í geymslur í Reykjavík samkvæmt ákvörðun listamannsins sjálfs og er þetta samstarf því ekki lengur í gangi. 

 Listsafnið er enn rekstraraðili Duus Safnahúsa þar sem nú eru átta sýningarsalir og þar af tveir alfarið fyrir sýningar listasafnsins en stundum bætast fleiri salir í húsinu við eins og t.d. á Ljósanótt þar sem venjulega eru fimm sýningar í gangi á hátíðinni á vegum safnsins.  Föst stöðugildi  eru tvö og hálft að meðtöldum safnvörðum í Duus Safnahúsum en staða forstöðumanns er þar fyrir utan.  Forstöðumaður gegnir ennþá stöðu menningarfulltrúa jafnhliða forstöðumannsstöðunni.  En eins og áður hefur verið minnst á, hefur safnið gert mikið af því að verkefnaráða starfsmenn til skamms tíma í senn og þannig getað staðið undir því mikla starfi sem þarna hefur verið unnið svo sem  að ljúka skráningu í Sarp.  Til gamans má geta að safnið hefur staðið fyrir rúmlega áttatíu sýningum í stóra listasalnum, eða um það bil fjórar til fimm sýningar á  ári seinni árin auk fjölda annarra í minni sölum í Duus.  Árið 2015 voru til dæmis haldnar tíu sýningar á vegum safnsins í Duus og þar af aðeins tvær sem komu tilbúnar annars staðar frá. Einkasýningar hafa verið í kringum fjörtíu og svipaður fjöldi samsýninga og nokkuð jöfn skipting milli kynja. Nokkrir erlendir listamenn hafa sýnt á vegum safnsins meðal annars frá Færeyjum, Svíþjóð, Þýskalandi, Portúgal og Bandaríkjunum. Listasafn Reykjanesbæjar hefur einnig verið í samvinnu við önnur söfn og þá einkum í sambandi við sýningarhald og er þar helst að nefna stóru listasöfnin á borð við  Listasafn Íslands og Listasafn Reykjavíkur en einnig má nefna listasöfn á Norðurlöndum.   

Lokaorð

Listasafn Reykjanesbæjar hefur á þessum árum náð að skapa sér stöðu sem lifandi menningarstofnun í samfélaginu á Suðurnesjum og nýtur enn talsverðrar velvildar sem ef til vill má rekja til áherslu safnsins á að reyna að vera áberandi í lífi bæjarbúa.  Auk ýmissa viðburða í tengslum við allar sýningar s.s. málþing, leiðasagnir og fyrirlestra hefur mikil áhersla verið lögð á fjölbreytta vinnu með nemendum allra skólastiga og safnið er einnig ávallt þátttakandi í helstu viðburðum svæðisins svo sem Safnahelgi á Suðurnesjum og Ljósanótt.  Á Ljósanótt hefur t.d. skapast sú regla að það er alltaf heimafólk sem þá sýnir í sölum safnsins. Til að safn úti á landsbyggðinni lifi, þarf það að hafa hlutverk í samfélaginu og hjá Listasafni Reykjanesbæjar hefur menntun í víðasta skilningi þess orðs verið helsti hornsteinninn og þannig náð til hjarta bæjarbúa.  Fagmennska og trúmennska ásamt fjölbreyttum verkefnum og góðu  starfsfólki hefur einnig hjálpað til að skapa safninu nafn og stöðu. 

Safnið þarf að vera lifandi stofnun, sem á sér stað í lífi heimamanna um leið og það þarf að skapa sér nafn innan faghópanna sjálfra, gagnrýnenda og listamanna í víðum skilningi.  Ferðamenn skipa einnig sífellt stærra hlutverk í gestafjölda safnsins eins og víða annars staðar.  Allt þetta þarf svo að falla saman og styðja hvert við annað svo að vel takist til og þangað vill Listasafn Reykjanesbæjar stefna. Ég vil svo að lokum þakka öllum þeim sem komið hafa að uppbyggingu og þróun Listasafns Reykjanesbæjar, hvort heldur er bæjaryfirvöldum á ýmsum tíma, listamönnum sem sýnt hafa hjá okkur, starfsfólki, því án þeirra væri safnið ekkert og gestum öllum hvort heldur er bæjarbúum eða öðrum sem lengra eru að komnir.