Listasafn Reykjanesbæjar stendur nú fyrir Listahátíð barna í þrettánda sinn og verða allir salir Duus Safnahúsa undirlagðir undir listsýningar leik- og grunnskóla bæjarins og listnámsbrautar framhaldsskólans. Nemendur allra skólanna 17 hafa unnið hörðum höndum stóran part úr vetri að verkefnum sínum og er yfirskrift sýninganna í ár Börn um víða veröld. Krakkarnir hafa kafað ofan í viðfangsefnið og skoðað hvað það er sem er börnum um allan heim sameiginlegt og m.a. komist að því að þótt börn búi um margt við misjafnar aðstæður þá þarfnast þau öll fjölskyldu og ástvina og skjóls af einhverju tagi. Þá hafa öll börn ánægju af leik hvar í heimi sem þau eru staðsett. Nemendur listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja taka þátt í þemanu en sýna einnig útskriftarverk sín. Sýningarnar standa frá 26.apríl til 13.maí og eru opnar alla daga frá 12.00 – 17.00.