Þríviður

Listasafn Reykjanesbæjar tók í fyrsta sinn þátt í Listahátíð í Reykjavík s.l. vor. Sýning Listasafnsins bar heitið Þríviður og var samsýning þriggja íslenskra myndlistarmanna sem allir hafa notað trjávið í miklum mæli við gerð verka sinna. Þeir voru Hannes Lárusson, Guðjón Ketilsson og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson og eru m.a. þekktir fyrir skúlptúra sína og innsetningar. Meðhöndlun listamannanna á þessum ævagamla efniviði var eins fjölbreytt og þeir voru margir, en áherslur þeirra báru þó keim af hugmyndalist og félagslega meðvitaðri myndlist síðari ára. Á sýningunni var verkum þeirra stillt upp þannig að þau kölluðust á og kveiktu neista hvert af öðru. Um leið var reynt að grennslast fyrir um hlutverk trjáviðar í íslenskri myndlist og tengslin við útskurðarlist fortíðar. Sýningarstjóri var Aðalsteinn Ingólfsson. Sýningin hlaut einstakt lof gagnrýnenda og var valin ein af 10 bestu sýningum ársins af gagnrýnendum Morgunblaðsins.

 

Þríviður

Til sýningarinnar Þríviður völdust listamennirnir Hannes Lárusson, Guðjón Ketilsson og Helgi Hjaltalín Eyjólfsson, sem skera sig úr þorra starfsbræðra sinna á vettvangi samtímalistar fyrir langvarandi og skipulega nýtingu á trjáviði í verkum sínum. Með tilliti bæði til sérstöðu þeirra og sögulegs hlutverks trjáviðar í íslenskum sjónlistum – einhver elstu þrívíddarverk Íslendinga eru úr trjáviði – var ákveðið að tefla saman þessum þremur ólíku listamönnum og kanna hug þeirra til efniviðarins og sögu þess, tímans, menningararfleifðarinnar, nytjahugtaksins og annarra þátta sem tengja má notkun trjáviðar í nútíma myndlist.

Aðalsteinn Ingólfsson: Nú veit ég að á ferli ykkar hafið þið notað margs konar

efnivið, en mig langaði engu að síður til að fá ykkur til að ræða notkun ykkar á trjáviði, ekki síst í því ljósi að viðurinn er bæði upprunalegast þeirra efna sem íslenskir þrívíddarlistamenn – þar með taldir útskurðarmeistarar - hafa notað sér, og um leið það efni sem fæstir íslenskir nútímalistamenn nota í dag.

Ég vil byrja á því að inna ykkur eftir því, hvern og einn, hvernig þið leiddust út í það að nota trjávið í verkum ykkar og byrja á þér, Hannes, þar sem þú ert aldursforseti sýnenda.

Hannes Lárusson: Hvað mig snertir þá sprettur notkun mín á trjáviði beint upp úr performönsum mínum og notkun á efni eða hlutum sem bjuggu yfir vissu líkamlegu aðdráttarafli og tengdust ákveðnum athöfnum. Í byrjun voru þetta mjög almennar þreifingar og tilraunir. En svo var það að afi minn varð 95 ára gamall. Hann minntist oft á  forláta stóra vatnsausu úr tré sem hafði verið í gamla torfbænum í Flóa, þar sem hann ólst upp, og sá eftir að hún hafði glatast. Ég fór eitthvað að pæla í þessu, spurði hann út úr og gerði teikningu af ausunni eftir lýsingu hans. Svo rauk ég í að smíða svona ausu fyrir gamla manninn og hélt að það gæti nú varla verið flókið mál. Ég komst fljótt að því að það var langt í frá einfalt að gera þetta og krafðist mikillar handverkskunnáttu og góðra verkfæra. Það var ekki bara að forma ausuna, heldur líka að velja rétta efniviðinn, aðlaga hana notagildi og svo framvegis. Ég var kominn til Kanada þegar ég loksins lauk við ausuna og sendi gamla manninum hana þaðan. Hann var þá orðinn sjóndapur en staðfesti þó þetta væri ekki fjarri ausunni sem hann mundi eftir. Þessi fyrsta ausa sem ég smíðaði er í þungum bændastíl, sem kemur mest til af því að á þessum árum var ég lítt kunnugur eðli efniviðarins og möguleikum réttra verkfæra.

Þessi frumraun varð svo til þess að ég fór að velta fyrir mér öllum hliðum á handverkinu sem slíku, en samtímis fór ég að setja það í samband við hugmyndir okkar um þjóðararfinn, samtímalist og táknfræði. Áhugi minn á trjáviði á því upphaf sitt í performönsunum, en ausan er svo kveikjan að handverkspælingunum sem ég lagðist í í framhaldinu.

A.I. : Þegar þú talar um að áhuginn á trjáviði hafi sprottið upp úr performönsunum, var það að einhverju leyti vegna þess að þér þótti viðurinn vera sérstaklega náttúrutengdur, óflekkaður af menningunni og allt það?

H.L. : Það er alveg klárt, ég hafði þörf fyrir að nota eitthvað sem tengdist náttúrunni í þessum performönsum. Það er eitthvað líkamlegt við tréð sem ég kunni vel við. Og svo má heldur ekki gleyma öðru, að vinnsluhraðinn, tíminn sem tók að búa til eitthvað úr trénu, var þægilegur. Í rauninni hef ég alltaf í aðra röndina litið á vinnsluferlið sem eins konar performans. Þetta er spurning um sjónarhorn. Ég hef aldrei haft sérstaka ánægju af því að vinna í leir, það gerist allt svo hratt í því efni. Að pjakka í stein er líka full hæggengt fyrir mig. Tré er hægt að vinna á manneskjulegum hraða, ef svo má segja. Vinnslan á því gefur manni tækifæri til að hugsa um hlutinn meðan maður er að vinna hann. Ég stunda það enn að gera módel af hlutum í tré fremur en öðrum efnum sem fljótlegt er að vinna í, því hraðinn og ferlið hentar mér. Svo er viður hreint og mannvænt efni sem oft má vinna með án verulegra tilfæringa, það er viss baðstofustemmning í trjávið.

Guðjón Ketilsson: Ég tek undir það sem Hannes segir, að trjáviður veitir manni svigrúm til að hugsa rækilega um hluti meðan maður er að vinna þá. En hvað varðar mína aðkomu að trjáviði, þá varð hún eiginlega fyrir tilviljun. Ég var búinn að fást við málverkið í nokkur ár, og kannski var byrjunin sú að ég var með einhvern gamlan og fúinn trékubb á vinnustofunni sem ég var þá að pæla í að nota sem mótíf í málverki, ég var að mála svona massíf form á þeim tíma. Það var fyrir rælni að ég fór eitthvað að skera í þennan kubb. Þarna var ekki um meðvitaða ákvörðun að ræða að byrja að vinna með þetta efni. Ég var fyrst og fremst að hugsa malerískt um þetta tré, yfirborðið, áferðina og innbyggða hreyfinguna í því fremur en sérstakan karakter efnissins. En tréð höfðaði strax mikið til mín og varð smám saman ráðandi efniviður hjá mér. Vinnan með efnið kveikti svo hugmyndir að öðrum verkum.

A.I. : Við höfum verið að kasta á milli okkar tímahugtakinu. Er það minn misskilningur, eða varst þú, Guðjón, ekki einhvern tímann hrifinn af trjáviði vegna þess mikla tíma sem hann bæri í sér, ekki bara árhundruðin sem það tekur gott tré að ná fullri stærð, heldur einnig þann mikla tíma sem það tekur listamanninn – a.m.k. listamann eins og þig – að fullvinna myndverk úr góðu tré?

G.K.: Tímaþátturinn kemur mikið inn í mína vinnu. Jú, fyrir það fyrsta er vinnsluferlið mjög hægt, það hentar mér vel. Vinnan við efnið tekur tíma, sem veitir manni svigrúm/rými til þess að hugsa og þróa næstu skref í úrvinnslunni. Svo má ekki gleyma hugmyndalega þættinu sem snýr að meðhöndlun yfirborðsins, gagnsæjum litalögunum, þar sem maður getur lesið tímann afturábak eins og veggfóðurslög.

Helgi Hjaltalín Eyjólfsson: Mín aðkoma er kannski dálítið öðruvísi en ykkar. Ég kem úr iðnaðarmannaumhverfi og hafði komið nálægt smíðum áður en ég fór að fást við myndlist, var því búinn að koma mér upp sæmilegri handverksþekkingu. Tré var eitthvað sem var bæði handhægt og fljótlegt að vinna, hvort sem maður var að búa sér til einhvern brúkshlut, hús eða vinna myndlist. Sama hvað maður var að gera, hvort sem það var viðeigandi eða ekki, þá greip maður fyrst til trjáviðar. Ég hef meira að segja gert hluti úr trjáviði og látið þá líta út eins og járn, þó það hefði kannski verið eðlilegra að móta þá beint í járn.

Þessi afstaða, og þessi handverksþekking sem ég hafði komið mér upp, hjálpaði mér mikið fyrstu árin. Á þeim tíma liggur manni svo mikið á, maður þarf að koma svo mörgu frá sér, að það var einfaldast fyrir mig að nota tré í því augnamiði, það var handhægt, létt og ódýrt. Ég get líka tekið undir það sem Hannes sagði um náttúru trjáviðarins, að hann veiti manni nákvæmlega það svigrúm sem maður þarfnast til skapandi hugsunar meðan maður er með hann undir. Áður var ég búinn að prófa mig áfram í öðrum miðlum, ég gerði teikningar, ljósmyndir o.fl.

Það er líka annað sem ég vil segja um trjávið, þ.e. að mér finnst öll vinnslan á trénu áhugaverð, allt frá því maður fær óheflaðan planka upp í hendurnar og allt til þess að maður skilar af sér fullunnum hlut: teikningin, skurðurinn, hefilvinnan og pússningin. Það kemur fyrir að maður tekur upp hlutinn miðja vegu, nokkuð hráan, og sér þá eitthvað sem manni hafði yfirsést, eitthvað sem fær mann til að gapa. Ekki svo að þá stoppi maður miðja vegu, því venjulega er maður kominn með einhverja endanlega mynd í kollinn sem verður að leiða til lykta.

A.I. : Skiptir það ykkur máli að trjáviður sem efniviður ekki er með eins mikið menningarlegt “trúss” á bakinu eins og margt annað efni, ég nefni bara brons og marmara?

G.K. : Fyrir mér hefur trjáviður sterk menningar-og atvinnusöguleg tengsl, sem ég hef til dæmis nýtt mér í verkum sem ég kalla “verkfæri”. Um leið er það kostur við viðinn að hann er mjög hversdagslegt fyrirbæri og því er hægt að smíða eitthvað úr honum án þess að hamra á þessum tengslum.

H.L : Það fylgir ekki trjáviði sami hátíðleiki og þessum efnum sem þú nefndir. Fyrir mér tengist það þeirri nytjahlutastemmningu sem fylgir trénu. Þetta tengist líka því sem ég nefndi fyrst í tengslum við performansana mína, þeir þörfnuðust nytjahluta eða líkamstengdra hluta og þannig kom trjáviður inn í myndina. Svo er það líka að trjáviður hefur töluvert lægri status í alþjóðlegri listasögu en brons og marmari, en á Íslandi er þessu öfugt farið; hér hefur það mikilvægan hugmyndafræðilegan sess sem ég hef verið mjög meðvitaður um. Ég hef stundum kallað útskurðinn og handverkshefðina, sem öll stendur mjög nálægt nytjahlutum daglegs lífs, “þriðju leiðina” að íslenskri þjóðmenningu, ásamt bókmenntaarfinum og landslagshefðinni. Mér finnst vera hægt að taka handverkið og nálgast einhverjar innri víddir í íslenskri þjóðmenningu gegnum það, án þess endilega að leggjast í neitt “þjóðháttafyllerí” í leiðinni. Ég hef alltaf reynt að forðast slíkt. Þetta snýst um að finna einhvers konar grátt svæði milli handverks og myndlistar: gera verk sem eru á forsendum handverks, en hugsa það eins og myndlist.

A.I. : Það er ekki svo að þú sért beinlínis að setja spurningamerki við gildi nytjahlutarins, heldur ertu beinlínis að leita þér listræns svigrúms einhvers staðar mitt á milli listhlutarins og nytjahlutarins.

H.L. : Það er rétt. Og svo er hægt að teygja sig yfir í sjálft hönnunarhugtakið í leiðinni. Það er mjög meðvituð ákvörðun hjá mér að vera á þessu gráa svæði eða jaðarsvæði, vegna þess að þar finnst mér ég vera frjálsari en ef ég ynni alfarið “myndlist” eða “nytjahluti” eða “hönnun”.

H. H. E. : Ég hef meiri áhuga á nytja-eða hönnunarþættinum heldur en þjóðfræðinni. Mér finnst áhugavert að búa til hluti sem eru við það að verða einhvers konar hönnun, eins og þegar ég bjó til fjölmarga klósettrúlluhaldara úr viði og sýndi sem eina heild. En ef ég ákveð að þetta sé myndlist, þá er það auðvitað myndlist!

A.I. : Varðandi klósettrúllurnar, voru það margföldunaráhrifin, sú staðreynd að þú varst með eitt hundrað rúllur undir, en ekki eina, sem höfðu úrslitaáhrif á það hvort verkið flokkaðist sem myndverk eða hönnunarprójekt?

H.H.E. : Í því tilfelli er um að ræða minn úrskurð; ég ákveð að þarna sé um myndverk að ræða. Þetta hefur eitthvað með það að gera að í margfölduninni verður hvert ítem, hver haldari,  einhvern veginn “ódýrari” að sjá – þrátt fyrir alla vinnuna sem lögð er í hann – heldur en það sem maður kaupir úti í búð, auk þess sem fjölföldun þeirra og uppsetning gerir úr þeim eins konar installasjón.

H.L. : Ég fann fyrir ákveðnu aðdráttarafl í handverksþættinum sem mér finnst áhugavert að leika sér með, að búa til einhvern nytjahlut sem uppfyllir allar kröfur sem maður gerir til slíkra hluta, en hefur að auki til að bera eitthvað sem við getum kallað “áru”. Hins vegar hef ég lítinn áhuga á fjölfölduninni sem slíkri, þótt ég hafi gert nokkur eintök af sama hlut í myndlistarlegum tilgangi.

A.I. : Nú hefur verið minnst á sérstöðu trjáviðarins fyrir okkur Íslendinga, þetta er eina “skúptúrefni” okkar í aldaraðir og við trjáviðinn er bundin listasaga okkar, þjóðfræði o.fl.

Ættum við að virkja þessa arfleifð með einhverjum hætti í nútíð, nota trjáviðinn til að byggja einhvers konar myndlistarlega brú milli fortíðar og nútíðar, eða eigum við að nálgast trjáviðinn alfarið á forsendum nútímalistarinnar og láta alla sögu hans lönd og leið?

H.H.E. : Ég veit ekki hvort myndlistarmenn hugsa þannig. Fyrir mér er öll listasagan, tréskurðurinn meðtalinn, ein hít sem maður leitar í eftir þörfum.

G.K. : Mér þykir ekki mikilvægt að þessi sögulegu tengsl við trjáviðinn séu hluti af verkinu. Ekki svo að ég hafni þessum tengslum, ég er mjög meðvitaður um þau frá því við vorum lóðsuð um Þjóðminjasafnið á barnaskólaaldri og kann vel að meta margt í gamla útskurðinum. En hvað mig snertir hefur hugmyndin ákveðinn forgang, og sú staðreynd að ég er að smíða mín eigin tilbrigði við verkfæri úr tré tengist ekki endilega sögulegri þýðingu trjáviðarins hér á landi, heldur tengist hún jafn mikið alþjóðlegri atvinnusögu.

H.L. : Þetta helst einhvern veginn allt í hendur, hið fagurfræðilega, þjóðfræðilega, hönnunarlega og svo framvegis. Þegar ég byrjaði að höggva og tálga fyrstu ausuna, þá var ég alls ekki að hugsa um það hvers konar hlut ég væri að búa til. Það var ekki fyrr en ég var kominn langt á leið að ég uppgötvaði hvað þetta var merkilegur hlutur út frá öllum þessum sjónarmiðum. Formið var fullkomið á honum, það var algjörlega sniðið að mannshöndinni og hlutverki hans í daglegum athöfnum; það hlutverk helgaðist síðan af þjóðfélagsmyndinni fyrr á tímum.

Ég hef síðan haldið áfram að vinna með þennan hlut í tugum tilbrigða. Og alltaf eru nýir og óvæntir möguleikar fyrir hendi. Nú síðast bjó ég til nokkrar ausuflautur með því að bora gat í handfangið endilangt. Þessa gripi notaði ég síðan í performans sem fluttur var í Kling og Bang nýverið. En ég get líka tekið undir það sem Guðjón sagði, ég leggst ekkert í djúpar rannsóknir á sögunni og þjóðfræðinni. Þetta er meira spurning um innsæi og tilfinningar og nota það sem hentar hverju sinni og fellur að því myndmáli og þeirri sýn sem maður hefur þróað í tímans rás.

H.H.E. : Það er stundum eins og meðvitað sé verið að búa til óþarfa mystík í kringum gamla íslenska útskurðinn. Ég man líka ferðirnar í Þjóðminjasafnið hérna í gamla daga, þá var kannski verið að sýna manni skápa eða einhvern annan útskurð eftir Bólu-Hjálmar, alveg makalaust flókinn útskurð. Svo var kannski búið að koma fyrir einum litlum tálguhnífi nálægt þessum hlutum, þetta var hnífurinn sem Bólu-Hjálmar átti að hafa notað til að tálga þessi meistaraverk. Og maður fylltist þvílíkri lotningu fyrir þessu ofurmenni með yfirnáttúrulega hæfileika, það var engu líkara en álfar hefðu verið þarna að verki. Ég hef stúderað bæði Flatartungufjalirnar og Valþjófsstaðahurðina og get fullyrt að þeir sem skáru út þessi verk höfðu aðgang að alls konar eggjárnum, ekki bara tálguhnífum.

En hún er vandmeðfarin þessi þjóðlega arfleifð; það er eiginlega bara Sigurrós sem getur kinnroðalaust tengt sig við álfana, við hinir stöndum bara ekkert í því, a.m.k. ekki meðvitað.

A.I. : Er þá verið að kynna okkur þjóðararfinn eins og tréskurðinn á fölskum forsendum?

H.H.E. : Ekki kannski á fölskum forsendum, en þarna er augljóslega um að ræða einhverja fáfræði þeirra sem setja þetta fram með þessum hætti.

A.I. : Skiptir trjáviðartegundin einhverju máli fyrir ykkur, þegar þið eruð að vinna með tré ? Helgi hefur nefnt hér fúaspýtur, mótatimbur, allra handa tré, bæði algengt og sjaldgæft.

H.H.E. : Það er ljóst að sumar hugmyndir er ekki hægt að framkvæma nema í ákveðinni tegund trjáviðar. En það er rétt, ég er ekki alltaf sérlega kræsinn þegar ég er að velja mér efni. Það er eitthvað heillandi við heila stafla af nýju uppsláttartimbri, þarna er lífrænt efni, náttúra, sem búið er að búta niður í staðlaðar einingar. Þótt þetta sé ekki það sem maður mundi kalla eðalefni, þá er það ákaflega þénugt og meðfærilegt.

A.I. : Þessar stöðluðu einingar eru þá eins konar tímaeiningar, hvert tré með sína árhringi.

En hvað með þig Hannes, skiptir það máli fyrir þig hvaðan viðurinn er kominn sem þú vinnur í, hvort þar er um að ræða fúaspýtu eða harðvið eða Síberíulerki eða eitthvað annað?

H.L. : Já, það gerir það. Ef ég er að vinna smærri hluti, við getum sagt nytjatengda hluti, þá vel ég mér oftast birki. Það er hluti af þessari tengingu við þjóðararfinn sem ég minntist á áðan. En það er ekki auðvelt að vinna það, það útheimtir töluverða handavinnu og yfirlegu. Það er oft kvistótt og snúið og þess vegna örðugt í vinnslu, mjög íslenskt að því leyti. Ef ég er í stærri verkum vil ég gjarnan smíða úr góðu efni, t.d. linditré eða eik. Rekavið hef ég nánast ekkert notað.

Ef ég er að gera skildi ýmiss konar, þá nota ég linditré. Það er löng hefð fyrir notkun á þeim trjávið meðal handverksmanna úti í Evrópu. Bæði er mjög gott að vinna í það tré með sporjárnum og hnífum, auðvelt að líma og það er mjög hlutlaust í útliti. Það hentar líka vel ef þú ætlar að mála viðinn, sem ég geri oft. 

G.K. : Ég vel viðinn eftir því sem ég er að fást við hverju sinni. Ég hef notað linditré mjög mikið, líka mahoní. Ég hef aðeins einu sinni notað rekavið, og þá valdi ég það vegna hugmyndalegra tengsla, hugmyndin að verkinu kallaði á rekaviðarbút með sína innbyggðu ferðasögu. Ég notaði bútinn meira og minna eins og hann rak að landi, var lítið að eiga við hann.

En viðartegundin skiptir mig oft engu máli, því oftast mála ég mína tréhluti og hamast svo við að slípa yfirborð þeirra. Þegar upp er staðið man ég stundum ekki hvaða viðartegund ég var með í byrjun. Oft er ég spurður um það af hverju ég sé að mála þetta fallega efni, tréð, eins og ég sé að vinna skemmdarverk á því, eða fela efnið. Fyrir mér er tréð efniviður eins og hver annar og ekkert heilagt við hann.

H.L. : Ég held að þessir fordómar gegn því að “skemma” trjávið með því að mála hann séu einhverjar eftirhreytur af Módernisma, hreyfingu sem hélt í eitthvað sem kallaðist á ensku “truth to material” – menn áttu að virða náttúrulega eiginleika efnissins, hvað sem þeir nefndust. En þetta er auðvitað sjónarspil og tískufyrirbrigði. Það er mjög auðvelt að klæða tréskúlptúr í módernískan búning með handverkslegri áferð eftir sporjárnin og náttúrlegheitum í efninu, reyndar geri ég það stundum ef það hentar inntaki verksins.

A.I. : Skiptar það ykkur verulegu máli, núna á síðustu og verstu tímum, að tré er ennþá einhver ódýrasti efniviður sem þrívíddarlistamaður á Íslandi á völ á, ég tala nú ekki um ef hann er dáldið útsjónarsamur.

G.K. : Já, ég held að það skipti máli. Sum stærri verk mundi ég hugsa mig tvisvar um að smíða ef efniviðurinn væri dýr. Vinnan með ódýrari viðartegundir veitir líka ákveðið frelsi til að gera tilraunir.

H.H.E : Maður er einhvern veginn frjálsari þegar efnið er svona ódýrt, því þá getur maður leyft sér að gera mistök, sem maður væri annars logandi hræddur við. Þegar maður gerir mistök í dýr efni, kannski óafturkræf, þá þarf maður að fara að hafa áhyggjur af næsta skrefi, á maður að byrja upp á nýtt eða reyna að nýta efnið með öðrum hætti, svo það fari ekki alveg í súginn. Það er eitthvað heiðarlegt við að geta unnið svona beint og áhyggjulaust í tré, í staðinn fyrir að þurfa að búa til mót af einhverju og vinna það áfram uns maður situr uppi með eitthvað sem ekki er kannski alveg eins og það kom manni fyrir sjónir í upphafi.

H.L. : Þetta er ekki áhorfsmál þegar maður er með krossvið eða eitthvað slíkt undir, hann kostar lítið, er alveg gífurlega þénugur til allra mögulegra hluta og svo framvegis. En svo eru verk sem beinlínis kalla á annars konar og mun dýrari við. Nú, og við skulum líka horfast í augu við það að verð á trjáviði fer hækkandi; maður er fljótt kominn upp í háar upphæðir ef  verkin eru umfangsmikil.

A.I. : Eins og fram kemur hér að framan, þá ert þú, Helgi, með útsjónarsamari mönnum þegar kemur að öflun trjáviðar, nýtir þér nánast allar gerðir trjáviðar.

H.H.E: Ég verð að gangast við því. Ég hef ekkert á móti því að nota til dæmis endurunninn trjávið eða trjávið sem hefur verið afskrifaður sem rusl. Í viði af því tagi er svo mikil saga sem stundum er sýnileg í viðnum, en stundum alls ekki. En mér er eiginlega sama þótt þessi saga sé ósýnileg, bara ef ég veit af henni.

A.I. : Þegar þig vantar efni, Guðjón, ferðu þá rakleiðis í BYKO eða Húsasmiðjuna og kaupir þér það sem þig vantar?

G.K. : Þegar ég byrjaði að vinna með tré, þá var ég mikið að tína það upp af götu minni ef svo má segja, úr görðum nágranna minna, þar sem verið var að höggva gömul tré. Þá hélt ég nokkurs konar bókhald yfir það hvaðan efnið kom – ekki frá hvaða löndum, heldur görðum – en í dag fer ég oftast í timburverslanir og sæki mér við.

H.L. : Ég er alltaf á höttum eftir góðu efni. Ef verið er að höggva niður birki eða reynivið einhvers staðar, reyni ég oft að ná mér í bút.  Það getur verið að ég þurfi að geyma svoleiðis boli á góðum stað í eitt eða tvö ár, en ég veit að ég kem til með að nota þá einhvern tímann. Svo er maður að sverma fyrir góðum viði að utan, til dæmis linditré. Það panta ég gjarnan ef mikið liggur við.

H.H.E. : Það er í rauninni hörgull á góðum trjáviði hér á Íslandi, því það eru ekki nema tveir eða þrír aðilar sem flytja hann inn. Og þessi innflutti viður er allur niðursneiddur og heflaður. Og svo er bara eins og innflytjendur sjái ekki nema eitt tré, nefnilega furu.

A.I. : Svona í lokin, getið þið lýst í stuttu máli hvað það er sem þið ætlið að framkvæma hér í Reykjanesbæ?

H.L. : Ég er þarna með nýtt verk sem er þó í svipuðum dúr og ég hef verið að fást við undanfarin ár. Það eru einhverjar tímatengingar í því, ásamt nytjahlutum. Uppistaðan eru mjög einfaldir sívalningar eða kollar úr krossviði, sennilega rúmlega tuttugu talsins. Ég bý sem sagt til kolla með því að formbeygja krossviðarplötur og festa saman. Í fjöldaframleiðslu væri þetta afar einfalt, einungis ein eining ásamt festingum. Hér er ég í vissri samræðu við ákveðna þráhyggju í hönnunarsögunni, sem gengur út á það að komast af með sem fæstar einingar en vera samt með “góðan” hlut. Að innanverðu eru þessir kollar málaðir í mismunandi litum sem smita út í rýmið, fyrir tilverknað lýsingar, í gegnum vatnsskorið mynstur á hliðum þeirra. Einn hluti af þessari innsetningu er svo myndband sem varpað er á vegg sem sýnir fólk á mismunandi aldri sitja hreyfingarlaust á þessum kollum. Þátttaka fólksins gefur verkinu bæði nauðsynlega líkamlega og tímalega vídd. Yfirbragð verksins ræðst að miklu leyti af rýminu, stemmningunni og samhenginu þarna í Duus-húsi; þessi ílangi salur og lága loft kalla einhvern veginn á þessa útfærslu. Ég hefði unnið öðruvísi verk fyrir smærra gallerí eða annars konar sal.

G.K. : Verkið sem ég sýni er eins konar safn hluta úr tré og öðrum efnum sem tengjast líkamanum á einn eða annan hátt. Í grundvallaratriðum byggi ég eins konar hillukerfi, grindur, inn í sýningarsalinn, sem mynda gang eða sérstakt rými. Á hillunum eru þessir líkamstengdu hlutir. Þeim má skipta í tvo meginþætti, byggingu/strúktúr og húð/skel. Í sumum tilfellum skarast þessir þættir reyndar. Í verkinu leita ég m.a. í eigin smiðju og vísa til eldri verka minna. En ég legg áherslu á að þetta eru samt allt ný verk.

Uppsetningin er mikilvægur þáttur í að binda saman hluti og mynda þannig samhengi, þar sem hlutirnir “ræðast við” eða slá neista hver af öðrum. Fyrir mér er verkið tilraun til að búa til óræð og margræð form, sem öðlast merkingu af samhengi sínu.

H.H.E. : Ég set annars vegar upp þrjár ljósmyndir, eina þeirra fann ég en hinar eru myndir af módelum sem gætu verið í fullri stærð. Svo er þarna turn sem ég sá upprunalega í einhverju dagblaði, ásamt með frétt um það að hann hefði skyndilega horfið. Það átti að hafa gerst í Íran eða Írak. Þetta fannst mér áhugavert í sjálfu sér, bæði sögulegt hlutverk þessa turns og sú staðreynd að hann virtist hafa gufað upp. Ég fór að spekúlera í þessu turni, teikna af honum myndir og svo framvegis. Til þess þurfti ég á að halda frekari upplýsingum um turninn, bæði í registri yfir dagblöðin og á netinu og þá brá svo við að þær virtust líka hafa gufað upp. Þá fór ég að velta fyrir mér fallvaltleikanum, hvernig menningarlegar minjar á borð við þennan turn geta yfirleitt horfið eins og hendi væri veifað og í ofanálag geti allar heimildir um brotthvarf hans horfið líka.

Hins vegar er turninn ekki alveg eins útlits eins og hann var á ljósmyndinni, því ég teiknaði mörg tilbrigði um hann undir áhrifum frá ítölskum Renessansturnum og nota þau sem útgangspunkt þegar ég smíða turninn, þannig að ég er líka að hafa áhrif á sögu þessa turns. Ef hann var þá nokkurn tímann til. Loks tilheyra verkinu þrír kollar með rassaförum, þannig að ég er líka inni í þessu kollaþema Hannesar.

Aðalsteinn Ingólfsson