Listahátíð barna
Listahátíð barna, sem nú verður haldin hátíðleg í 10. sinn, er samvinnuverkefni Listasafns Reykjanesbæjar, allra 10 leikskóla bæjarins, allra 6 grunnskólanna, Tónlistarskólans, dansskólanna og nú einnig listnámsbrautar Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Hátíðin hefur vaxið og eflst með hverju ári og segja má að hún hafið orðið kveikjan að sérstakri barnahátíð sem nú er haldin í Reykjanesbæ þar sem virðing fyrir börnum, störfum þeirra og þörfum er höfð að leiðarljósi. Listsýningar tengdar hátíðinni eru staðsettar í Duus Safnahúsum, menningar- og listamiðstöð Reykjanesbæjar. Verk leikskólabarnanna eru staðsett í Listasal undir heitinu „Undraheimur bókarinnar,“ verk grunnskólabarnanna eru til sýnis í Gryfjunni undir heitinu „Listaverk í leiðinni“ og verk FS eru staðsett í Risi Bryggjuhússins og heitir sýning þeirra „MYGLA.“ Nemendur tónlistarskólans og dansskólanna koma fram á ýmsum viðburðum hátíðarinnar og spila þar mikilvægt hlutverk. Til dæmis koma þeir fram á sérstakri Hæfileikahátíð grunnskólanna sem fram fer í Stapa föstudaginn 8. maí kl. 10.00.
Undraheimur bókarinnar
Á hverju ári er ný yfirskrift valin fyrir sýningu leikskólabarnanna. Ýmis viðfangsefni hafa orðið fyrir valinu m.a. vináttan, hafið, himinninn, sögur og ævintýri,umhverfið og afmæli. Í ár er það bókin sem er viðfangsefni barnanna og rímar það mjög vel við áherslur í framtíðarsýn Reykjanesbæjar. Yfirskriftin leggur grunn að margvíslegu námi barnanna stóran hluta úr vetri. Kafað er ofan í viðfangsefnið frá ýmsum sjónarhornum og afraksturinn birtist m.a. í glæsilegum skúlptúrum sem settir eru fram í formi listsýningar í samstarfi við Listasafn Reykjanesbæjar. Úr verður ævintýraheimur sem lætur hvorki fullorðna né börn ósnortin.
Sýningin er opnuð með formlegum hætti í Duushúsum fimmtudaginn 7. maí kl. 10.30 að viðstöddum elstu börnum leikskólanna sem syngja þar söngva sérstaklega valda í tilefni sýningarinnar. Þessi viðburður markar einnig upphaf Barnahátíðar í Reykjanesbæ sem stendur hæst laugardaginn 9. maí. maí. Listahátíðin sjálf stendur hins vegar til 25. maí. Daglega á meðan á henni stendur koma leikskólarnir í heimsókn og standa fyrir stuttri skemmtidagskrá sem er öllum opin.
Listaverk í leiðinni
Yfirheiti sýningar grunnskólabarnanna hefur fram til þessa falið í sér fjölbreytta staðsetningu á verkunum þar sem þau hafa undanfarin ár verið staðsett á ýmsum fjölförnum stöðum í bænum. Nú var sú leið hins vegar farin að búa til eina samsýningu í Gryfjunni í Duushúsum. Listaverkin eru af öllu tagi og úr hinum ýmsu list- og verkgreinum. Á sýningunni má sjá gott yfirlit yfir vinnu vetrarins, margvísleg vinnubrögð og óþrjótandi sköpunargleði barnanna í bænum. Þarna var ekki unnið undir einu yfirheiti heldur fékk fjölbreytnin að ráða ferðinni og afraksturinn er ótrúlegur, við sjáum verk frá öllum grunnskólunum og ýmsum árgöngum. Sýningin verður opnuð með formlegum hætti miðvikudaginn 7. maí kl. 13:00.
Mygla
Það er sérlega ánægjulegt að nemendur framhaldsskólans bætist nú við sem þátttakendur á Listahátíð barna, þótt þeir séu ekki börn lengur, en byggja e.t.v. listsköpun sína á því veganesti sem þeir hlutu á fyrri skólastigum um leið og verk þeirra geta orðið yngri nemendum innblástur. Á sýningunni í Risi Bryggjuhússins sjáum við verk eftir útskriftarnemendur á listnámsbraut.