Leikfléttur

Sýning Kristínar Rúnarsdóttur „Leikfléttur“ verður opnuð í Listasafni Reykjanesbæjar fimmtudaginn 4. september kl. 18:00.
Sýningin er liður í dagskrá Ljósanætur 2014.

Kristín Rúnarsdóttir fæddist í Keflavík árið 1984. Hún stundaði nám við myndlistardeild Listaháskóla Íslands og hélt síðan til framhaldsnáms í Kunst- og Designhøgskolen i Bergen, Noregi. Kristín hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í fjölda samsýninga á Íslandi og í Noregi.

Í innsetningu sinni í Listasafni Reykjanesbæjar vinnur Kristín með ýmis efni, svo sem límbönd sem hún notar til að teikna með á gólfið, pappír, málningu, við og lakk.

Margt í verkum hennar minnir á íþróttaleikvanga og leiki. Í texta Markúsar Þórs Andréssonar í sýningarskrá segir: ,,Manni koma til hugar leikir og vill helst taka þátt, eru þetta ekki stærðar Mikado pinnar innan um lokkandi klifurgrindur?” Að auki skrifar Markús um vinnuaðferðir Kristínar og segir:

,,Á vinnustofunni er listakonan lúsiðin; skissar, gerir uppkast og módel, þaulvinnur verk sín með reglustikum og skurðarhnífum. Óteljandi skipulögð handtök sem gefa til kynna að hún viti nákvæmlega hvað hún hefur fyrir stafni. En óvissa ríkir allt fram á ögurstund og þar liggur spenna og eftirvænting sem áhorfendur skynja og auka á ánægjuna við sýningarupplifunina.”

 

 

 

 

 

 

 

Hingað og aðeins lengra

Rúm fjörutíu ár eru nú liðin síðan að franski listamaðurinn Daniel Buren sýndi í New York í fyrsta sinn. Verk hans var í sjálfu sér einfalt en vakti samstundis athygli og markaði þáttaskil í framvindu málverksins. Buren hafði einskorðað myndmál sitt við rendur og að þessu sinni hengdi hann nokkra röndótta klæðisstranga upp á snúru sem var strengd yfir vegg gallerísins, út um gluggann og yfir götuna þar sem hún var fest í húsið á móti. Jafnmörg verk héngu inni í sýningarsalnum og utandyra - eitt hékk hálft inni og hálft úti í opinni gluggagætt.

Buren var ekki einn um þessar hugleiðingar á sjöunda og áttunda áratugnum. Víða um lönd brann á listamönnum að þenja hugmyndir sínar út fyrir myndflöt verkanna sjálfra, inn í rýmið og jafnvel út fyrir það. Hinn þýski Blinki Palermo vann beint á veggi og dró fram lögun sýningarsalanna í línum meðfram hornum, dyrum og gluggum og hin japanska Yayoi Kusama lét doppur í málverkum sínum smitast út fyrir rammann um veggi og gólf. Á tiltölulega skömmum tíma varð málverk ekki lengur það sem það hafði verið og hlutverk listrýmisins ekki hið sama og fyrr. Leikreglunum hafði verið breytt og mörk hvors um sig þöndust út.

Á Íslandi fóru listamenn ekki varhluta af þeim breytingum sem lágu í loftinu. Tilraunir með mörk málverksins áttu þó ekki upp á pallborðið í hinni einsleitu listasenu þess tíma. Hörður Ágústsson kom fram með röndótt verk sem hann vann með strigalímbandi en þær pælingar fóru lágt. Kristinn Pétursson afréð að sýna ekki nokkrum manni sínar hugmyndir, einlit málverk sem átti að hengja upp þannig að veggirnir og rýmið sjálft yrðu hluti af allt um lykjandi heildarmynd. Til allrar hamingju getum við nú horft til baka og metið framsýni þessara listamanna að verðleikum.

Það er gaman að leiða hugann að þessum umbrotum í listasögunni og setja í samhengi við það sem fyrir augu ber í dag. Kristín Rúnarsdóttir setur fram verk sín af öryggi og leikgleði sem væri óhugsandi án tilrauna í anda þess sem fyrrgreindir listamenn fengust við á sínum tíma. Hún notast við línu og lit, teiknar ýmist á veggi og gólf með límböndum og lakki en teikningin verður einnig þrívíð í formi frístandandi grinda úr timbri. Liturinn er algjörlega flatur og dregur fram undirstöðueiginleika málverksins sem tvívíðs yfirborðs þrátt fyrir að um sé að ræða flóknar, þrívíðar innsetningar. Myndmál Kristínar er hreint og klárt, á forvitnilegum mörkum hins stofnanalega og kalda annars vegar og hins persónulega og leikandi hins vegar.

Manni koma til hugar leikir og vill helst taka þátt, eru þetta ekki stærðar Mikado pinnar innan um lokkandi klifurgrindur? Um leið minnir margt á hömlur, strikin sem draga mörk og setja manni skorður. Kristín sækir innblástur í myndmál almannarýmis, í regluverk og skipulag. Úr heimi íþróttanna sækir hún grunnriss leikvanga, innviði leikfimisala og sérhannaðan búnað sem skilgreinir ákveðna hreyfingu og athafnir. Þá skoðar hún bílastæði, akreinar, flugvelli og önnur afmörkuð svæði sem hönnuð eru til að forða fólki frá öngþveiti og slysum. Skilaboð þessa myndheims eru skýr og þegar maður stendur andspænis honum í daglegu lífi fer ekki á milli mála að verið er að vísa til boða og banna: „Hingað og ekki lengra!" Í samhengi myndlistarsýningarinnar skolast þessi skilaboð til. Allt kemur manni kunnuglega fyrir sjónir en grunur leikur á að ekki sé stuðst við sérstakar leikreglur. Línur liggja þvers og kruss og engin leið að átta sig á hvort maður stendur innan vallar eða utan, með eða á móti umferð.

Hugarflugið fer af stað. Hvers konar leikur eða hreyfing á við innan þessa ramma? Hver og einn fær svigrúm til þess að láta hugann reika og laga regluverkið að eigin óskum. Í því felst útúrsnúningur á myndmáli sem venju samkvæmt er ætlað að skapa sameiginlegan grundvöll fyrir afmarkaðan hóp. Þannig kalla verk Kristínar fram hugleiðingar um stöðu einstaklingsins gagnvart samfélaginu og möguleika á breytingum innan fastmótaðra kerfa. Til að renna stoðum undir þann skilning leitar hún markvisst í landsvæði Miðnesheiðar sem herstöð Atlantshafsbandalagsins hafði áður til umráða. Þar er að finna eftirstöðvar af innviðum sem höfðu áratugum saman haldið röð og reglu um ákveðið samfélag og starfsemi. Þar var sjálfstætt þorp með gatnakerfi, íbúabyggð, skólum, leiksvæðum og íþróttamannvirkjum en einnig flugvöllur með lendingarbrautum, þyrlupöllum og þjónustusvæði. Tilvísanir í allt þetta er að finna í verkum Kristínar. Við brotthvarf hersins fengu Íslendingar á einu augabragði aðgang að þessum strúktúr og stóðu (og standa jafnvel enn) hálfringlaðir frammi fyrir honum. Hvaða leik er hægt að finna upp hér?

Kristín höfðar til áhorfenda með aðlaðandi viðmóti verka sinna. Þeir hreyfa sig um í sýningarsalnum og upplifa þau frá ólíkum sjónarhornum, bæði utan frá úr fjarlægð en einnig að innan. Óvíst er hvað snýr fram og hvað aftur, hvort verk á að vera á hlið eða upp á rönd. Innan einstakra verka og á milli þeirra er ekki að greina neitt stigveldi, ekkert sérstakt er í aðalhlutverki, hvorki forgrunnur né bakgrunnur. Einungis jafnræði yfirborðsins. Kristín leikur sér að því að dreifa áhersluatriðum þannig að erfitt reynist að fanga verkin sem eitthvað sérstakt. Þau minna á margt en skilgreiningin tvístrast jafnharðan enda eru þau ekki mynd af neinu sérstöku; þau snúast um samhengi og aðstæður.

Þessi kvika virkni gerir það að verkum að ómögulegt er að átta sig fyllilega á kjarna verkanna fyrr en þau eru komin upp og áhorfendur teknir að njóta þeirra. Á vinnustofunni er listakonan lúsiðin, skissar, gerir uppkast og módel, þaulvinnur verk sín með reglustikum og skurðarhnífum. Óteljandi skipulögð handtök sem gefa til kynna að hún viti nákvæmlega hvað hún hefur fyrir stafni. En óvissa ríkir allt fram á ögurstund og þar liggur spenna og eftirvænting sem áhorfendur skynja og eykur á ánægjuna við sýningarupplifunina. „Hingað og ekki lengra" segir myndmálið sem Kristín notast við einmitt til þess eins að segja hið gagnstæða; hingað erum við komin en við hljótum að finna leiðir til að ná aðeins lengra.