Gunnlaugur Scheving (1904 – 1972)
Nafn
Gunnlaugur Scheving (1904 – 1972)
Ferilskrá
Gunnlaugur er meðal helstu listamanna þjóðarinnar sem ruddi nýjum viðhorfum til myndlistar braut á fjórða áratug síðustu aldar en í Listasafni Íslands er varðveitt mikið safn verka hans og þar á meðal dánargjöf listamannsins. Gunnlaugur var fæddur í Reykjavík en ólst upp á Austurlandi. Hann fluttist til Reykjavíkur árið 1920 og sótti einkatíma hjá Einari Jónssyni myndhöggvara og nam við teikniskóla Guðmundar Thorsteinssonar, Muggs. Hann fór til Kaupmannahafnar 1923 og var á teikniskóla Viggos Brandt á Ríkislistasafninu um veturinn. Hann var síðan í fimm ár við Konunglegu listaakademíuna.
Hann flutti heim til Íslands ásamt unnustu sinni og skólasystur, Grete Link, árið 1930. Sama ár hélt hann sína fyrstu einkasýningu auk þess að sýna í Kaupmannahöfn. Gunnlaugur tilheyrir þeirri kynslóð listamanna sem fram komu í lok fjórða áratugarins þegar efnahagskreppa og þjóðfélagsátök beindu listamönnum inn á nýjar brautir í myndlistinni. Landslagið var ekki lengur aðalviðfangsefnið heldur nánasta umhverfi og daglegt líf þar sem hversdagslegir hlutir, maðurinn og vinnan urðu hin nýju viðmið.
Verk Gunnlaugs snúast fyrst og fremst um manninn og veruleika hans.
Árið 1966 lauk hann við feiknastór málverk sem prýða veggi byggingar Háskóla Íslands, fyrrum Kennaraháskóla Íslands við Stakkahlíð. Gunnlaugur ánafnaði Listasafni Íslands þau verk sem hann átti í fórum sínum árið 1972, og var dánargjöfin rúmlega 1800 verk.