Þriðja augað
Þeir sem fara burt koma aldrei aftur til baka. Maður er rétt rúman hálftíma að keyra frá Reykjavík til Keflavíkur, en það er samt miklu lengra á milli þessara staða, líklega einir þúsund kílómetrar. Yfir veðurharðar heiðar að fara, þeir teljast góðir sem komast á einum degi. Það eru til staðir á Íslandi sem búa yfir töfrum eða einhverjum kyngimætti. Ég nefni Ísafjörð, Höfn í Hornafirði, Borgafjörð eystri. Umhverfið lyftir þeim upp í næstum goðsögulegar hæðir, þetta sambland af fjöllum og himni, samspil grjóts og himinbláma. Í gegnum árin hefur fólk notað ýmis orð til að lýsa Keflavík, bærinn hefur þó aldrei verið kallaður goðsögulegur, líklega hafa fáir sagt hann fallegan, og enn færri töfrandi. En enginn getur borið á móti því að staðurinn er einstakur. Það er stundum eins og bæjarlífið hérna og umhverfið sé eitt og hið sama. Einhver svipur mótaður af vindum og Ameríku, seltu hafsins og fótbolta; staður mótaður af himni sem virðist endalaus og vegi sem liggur annaðhvort til Reykjavíkur eða út á haf. Keflavík er, hvað sem hver segir, goðsögulegur bær. Hann er mikið sögusvið, óuppgötvað af skáldsagnahöfundum heimsins, svið ríkt af möguleikum, heimur ríkur af öfgum. Hér finnur maður fyrir horfnum Könum, sér bleik hús, finnur lykt af svörtu hrauni, heyrir óminn af hálfgleymdum rokklögum.
Einar Falur er fæddur og uppalinn í Keflavík. Hann er Keflvíkingur, maður finnur það einhvernveginn. Hann er einn þeirra sem fóru burt, og lengi vel var eins og hann kæmi aldrei aftur til baka. En jafnvel þótt þú farir út á heimsenda og finnir þar fyrir endalokum tímans, þá berðu bernskuheiminn alltaf innra með þér. Hann er rótin sem tengir þig við heiminn. Sá maður sem glatar bernskuslóðum sínum, glatar líkast til heiminum. Einar Falur fór til Reykjavíkur, þaðan til Bandaríkjanna og hefur síðan ferðast svo víða að maður væri næstum fljótari að telja þá staði sem hann hefur ekki heimsótt, en þá sem hann hefur sótt heim. Ég kynntist honum fyrst þegar við þvældumst báðir um ganga Fjölbrautaskólans fyrir rúmum tuttugu árum. Þá fóru sögur af þessum bókmenntahneigða bassaleikara í kolbrjálaðri pönkhljómsveit. En hann var jafnframt náunginn sem var sífellt á þönum á japönskum smábíl í leit að efni fyrir Morgunblaðið. Ég vissi að hann væri sjóndapur, og stóð af einhverjum ástæðum í þeirri meiningu að hann hefði misst framan þremur fingrum og þessvegna þurft að leggja bassann á hilluna og taka upp myndavélina í staðinn. Sjóndepurð Einars Fals varð mér snemma umhugsunarefni, eða öllu heldur sú mótsögn sem fólst í því þegar hann bar myndavél upp að sjóndöpru auga og tók ljósmynd sem bar vitni um mjög skarpa sýn á veröldina.
Einar Falur er hugsandi ljósmyndari. Og lærður. Ramminn virðist fullskapaður í höfði hans þegar hann smellur af. Allt virðist hafa hlutverk; kyrrstæður bíll, horn á húsi, rýmið fyrir ofan andlit. Einar Falur er markviss listamaður, meðvitaður í byggingu mynda sinna, eins og Gunnar Gunnarsson er í byggingu sagna sinna. Hann veit hvað hann vill, fálmar ekki tilviljunarkennt út í lofið og reynir síðan að ná áttum þegar hann framkallar myndirnar. Hann fangar augnablik, staði og birtu, dregur fram atriði sem við höfum ekki tekið eftir eða setur það í óvænt samhengi. Hann veitir okkur því ósjaldan nýja sýn á umhverfið.
Einar Falur hefur farið til Suður-Ameríku og Ástralíu, flúið undan ísbjörnum á Norðurheimskautinu og horft á hákarla á Indlandshafi. Og nú er hann kominn aftur til Keflavíkur, fullþroskaður listamaður sem beinir myndavélinni að bernskuslóðum sínum. Hvað sér hann? Hvað rammar hann inn? Sjáum við andrúm Keflavíkur í myndunum, finnum við fyrir minningum Einars Fals? Hvað gerist þegar tvennir tímar skerast í rammanum, sá liðni og sá sem er að líða? Það sem hefur gerst, og það sem er að gerast?
Þeir sem fara burt koma aldrei aftur til baka. Þetta er hárrétt, en samt hefur Einar Falur snúið aftur. Ekki þó með búslóðina, páfagauk og ketti og lykil að nýju heimili, heldur í leit að rótunum. Nei, líklega er þetta ekki beinlínis leit að rótunum, heldur frekar tilraun hans að tengja saman fortíð og nútíð með myndavélinni - sínu þriðja auga. Myndir Einar Fals eru tvennir tímar, þær eru á tveimur tilverusviðum. Hann beitir hér stórri, hægvirkri plötuvél, stingur höfðinu undir dúk og rammar inn skýran, margbrotinn heim, frystir andartakið en breytir því um leið í þúsund ár. Við sjáum sögusvið bernskunnar, sjáum bíla, körfuboltavöll, bakgarða, vita, kirkjugarð, andlit, kofa sem börn hafa klastrað saman, heillandi og ófullkomnir eins og minnið, eins og líf mannsins; en er ekki eins og við skynjum landslag minninganna einhverstaðar á bak við? Heyrum nið tímans? Hér mætast þroski og bernska. Horfin líf og lifandi augu. Þetta er glataður tími fundinn á ný. Eða með öðrum orðum: kjarni listarinnar. Hin vandasama, varasama og gefandi leit af því sem ekki er hægt að finna. Í gömlum bókum segir að það sé fyrst og fremst þessi leit sem skapi listina, og hugsanlega sjálfan tilganginn. Einar Falur er því á góðri leið. Við skulum leggja orðin til hliðar og virða myndirnar fyrir okkur.
Jón Kalman Stefánsson