Að gefnu tilefni

Fyrir hönd Listasafns Reykjanesbæjar harma ég að ekki verði af sýningu Bryndísar Hrannar Ragnarsdóttur í safninu. Það er synd að svona fór en því miður gekk samstarfið mjög brösuglega frá upphafi og ekki var staðið við þá tímafresti sem settir voru er snúa að uppsetningu sýningarinnar.

 

Nokkrum dögum fyrir fyrirhugaða opnun kom í ljós að Bryndís treysti sér ekki að fylgja þeim ramma sem safnið hefur sett er varða m.a. útgjöld, vinnutíma starfsfólks og samvinnu um sýningaskrá. Safnið setti þá fram úrslitakosti um loka-undirbúning sem ekki var fallist á. 

 

Listamaðurinn og verkin hans eru sannarlega mikilvægasti þátturinn í hverri sýningu en það koma þó margir aðrir að því að setja upp og undirbúa myndlistarsýningar. Tæknimenn, smiðir, aðstoðarfólk, listfræðingar, sýningarstjórar og fleira starfsfólk. Í þessu tilfelli komu upp samstarfsörðugleikar sem leiddu til þessarar leiðu niðurstöðu að ekki verður af sýningunni í Listasafni Reykjanesbæjar.

 

Með því er ekki felldur neinn dómur um listamanninn eða verk hans en því miður gengu hlutirnir ekki upp í þessu tilfelli.

 

Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar