Listahátíð barna og ungmenna 2024

Listahátíð barna og ungmenna í Reykjanesbæ verður haldin í átjánda sinn í Listasafni Reykjanesbæjar og Duus Safnahúsum 3. – 12. maí 2024.

 

Formleg opnun listahátíðar verður haldin með leikskólabörnum föstudaginn 3. maí, kl. 10:00.

Yfirskrift sýningarinnar hjá leikskólabörnum er Sögur og söngvar lifna við. Leikskólarnir voru þegar að vinna með ákveðnar bækur og söngkvæði í öðru verkefni og var ákveðið að tengja það við þema listahátíðarinnar. Í fremri sal listasafnsins hefur myndast ævintýraheimur, þar sem lög, textar og myndir verða að þrívíðum skúlptúrum.

 

Opnun sýningar Fjölbrautaskóla Suðurnesja verður föstudaginn 3. maí, kl. 15:00, í bíósal. Þar fáum við að sjá vel valin verk eftir útskriftarnemendur af listnámsbraut.

 

Í ár fékk Listasafn Reykjanesbæjar styrk frá Barnamenningarsjóði til þess að koma á samstarfi grunnskóla og listamanna. Ákveðið var að 5. bekkur í öllum grunnskólum myndi taka þátt í ákveðnu verkefni sem unnið var fyrir listahátíðina, þemað var Heimili / Öryggi.

Maríanna Eva Dúfa Sævarsdóttir vann með Háaleitisskóla, Drífa Líftóra vann með Njarðvíkurskóla, Salóme Bregt Hollanders vann með Myllubakkaskóla, Leifur Ýmir Eyjólfsson vann með Stapaskóla, Fríða Katrín Bessadóttir vann með Holtaskóla, Marsibil Sól Þórarinsdóttir Blöndal vann með Akurskóla og Bragi Hilmarsson vann með Heiðarskóla.

 

Listahátíðin er hluti af BAUN, barna- og ungmennahátíð, og er afrakstur fjölbreytts listastarfs nemenda úr öllum leik- og grunnskólum Reykjanesbæjar og af listnámsbraut Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

 

Komið við og sjáið sköpunargleði barna og ungmenna í Reykjanesbæ.

Aðgangur er ókeypis á meðan listahátíð stendur yfir, verið öll innilega velkomin!

 

Opnunartími listahátíðar:
Virkir dagar 9:00 - 17:00.
Helgar 11:00 - 17:00.