Einar Garibaldi Einarsson, Blað 18-Reykjanes

Öll erum við að draga upp kort af okkur á meðan við tórum á lífsleiðinni. Við stundum þetta með störfum, tilfinningum, smekk og öðru sem felst í því að vera til... Í listaverki þarf landslagið ekki að sjást í mynd af fjöllum, vegum eða fljótum og heldur getur þessu verið lýst með táknum. Þau eru oftar en ekki lítt skiljanleg í augum annarra en þeirra sem hafa vígst inn í trúna, ef svo má segja, og kunna dulmál listarinnar og geta þess vegna lesið út úr táknunum og skilið hvað býr að baki þeirra. Tákn eru merki um trú þeirra sem eru í söfnuðinum.  Táknið er heilagt.  Því fylgir sú heilaga kvöð að nefna hlutinn ekki með réttu nafni heldur öðru.  Til þess nota menn kenningar, sem eru væntanlega dýpri og dularfyllri en það sem þær vísa til.  Með þessu móti geta tákn fælt fólk frá sér.  Öðrum en trúuðum er meinaður aðgangur.  Þetta er algengt viðhorf í listum.  Til þess er leikurinn á vissan hátt gerður, að geta villt um fyrir þeim sem kunna að ógna hinu eina rétta uns þeir skilja það.  Um leið er þeim fagnað eins og frelsuðum sálum...Verkin hafa heillandi blæ þess sem er ólokið, ófrágengið.  Hér er ekki á ferð listrænt bragð heldur skírskotun til Reykjaness, svæðis sem hefur aldrei lokið því fullkomlega að vera til.  Það er í stöðugri mótun með eldgosum, jarðhræringum.  Verkin vísa líka til atriða sem einkenna Suðurnesjamenn.  Þetta er tilfinningin fyrir því sem er alltaf í mótun: Úfnum sjó, úfnu landi.  Þannig er óbrotni andinn sem mótar fólk á nakinni jörð á móti hafi.