Blað 18-Reykjanes

Blað 18 - Reykjanes nefnist myndlistarsýning Einars Garibalda sem verður opnuð í nýjum salarkynnum Listasafns Reykjanesbæjar kl. 17 í dag. Sýningin er haldin í tengslum við Ljósanótt, og er sú fyrsta sem opnuð er á vegum safnsins í Austursal Duushúss þar sem staðið verður fyrir reglulegu sýningarhaldi.

Einar Garibaldi lýsir sýningunni sem málverkasýningu, og er þar fjallað um landslagið eins og það birtist í túlkun kortagerðarmanna. "Verkið er í 52 hlutum og vísar titillinn í kort frá landmælingum Íslands sem gefið er út í Atlaskortaröðinni. Blað 18 í þeirri röð er af Reykjanesi," segir Einar. "Ég lít á verkin sem landslagsmyndir og beini að því sjónum hvernig þetta landsvæði, þ.e. Reykjanesið, hefur verið túlkað af kortagerðarmönnum. Mér finnst það í raun athyglisverðara að fylgjast með því hvernig náttúran er túlkuð á kortum fremur en í myndlist. Hvort tveggja er náttúrulega sjónræn framsetning á náttúrunni og er ég að velta þessu fyrir mér á sýningunni. Þannig má segja að verkið á sýningunni sé málverk sem er kort sem er málverk."

Einar Garibaldi hefur unnið nokkuð með þann ólíka skilning sem lagður er í landslagið í skynjun og framsetningu, og segir hann verkin á sýningunni Blað 18 - Reykjanes t.d. tengjast fyrri verkum, þ.e. skiltum er vísa veginn og merkja landslagið. "Kortagerðin velur og hafnar, hún ákvarðar fyrir okkur hvað er merkilegt og hvað ekki í landslaginu. Þó svo að ég vinni með táknin sem birt eru á kortinu beinist athygli mín ekki síður að eyðunum á milli táknanna. Eitt af því sem er svo athyglisvert við þetta kort 18 er að það er eiginlega ekkert á því. Það hefur einhvern veginn raðast þannig inn í Atlas-kerfið."

Einar segir hin nýju salarkynni Listasafns Reykjanesbæjar vera kjörinn vettvang fyrir umrædda sýningu, en hugmyndina að henni fékk hann fyrir nokkuð löngu, eftir að kort af Reykjanesi rataði í hendur hans. "Ég hef eiginlega verið að bíða eftir að finna réttan vettvang til að sýna þetta verk, því mér fannst alveg nauðsynlegt að það yrði einhvers staðar á Reykjanesi. Salurinn í Duushúsi er góður og þykir mér þetta mjög áhugavert starf sem er að hefjast hér. Hér er orðinn til metnaðarfullur og samfelldur myndlistarvettvangur í Reykjanesbæ," segir Einar Garibaldi en sýning hans í Duushúsum stendur til 20. október.